Þúsundir heimsækja kirkjugarða í dag

Kirkjugarðurinn í Hafnarfirði í dag.
Kirkjugarðurinn í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Það er annasamur dagur í kirkjugörðum Reykjavíkurprófastdæmis í dag eins og jafnan á aðfangadag. Kári Aðal­steins­son, garðyrkju­stjóri hjá Kirkju­görðum Reykjavíkurprófastsdæma, segir þúsundir flykkjast í garðana á aðfangadag til þess að heimsækja látna ástvini.

„Maður sér alveg heilu stórfjölskyldurnar koma hérna í hópum og oft er fólk jafnvel að heimsækja tvö eða þrjú leiði, labba á milli, kveikja á kertum og votta hinum látnu virðingu sína. Þetta er jólahefð hjá mörgum og fólk mætir jafnvel á sama tíma á hverju einasta ári.“

Kári segir álagið þó dreifast að einhverju leiti þar sem Þorláksmessa hafi lent á helgi. „Engu að síður er þetta stór dagur og fólk var byrjað að koma hingað klukkan átta í morgun eða jafnvel fyrr.“

Frá duftgarðinum í Fossvogi fyrr í dag.
Frá duftgarðinum í Fossvogi fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lokað fyrir bílaumferð

Kári bendir á að mikilvægt sé að fólk gefi sér góðan tíma ef það ætli sér að heimsækja einhvern garðanna í dag enda mikil traffík, sérstaklega í kringum hádegið, og þétt setið um bílastæði í grennd við garðana. Lokað er fyrir bílaumferð í Fossvogskirkjugarði á milli ellefu og tvö í dag.

„Garðurinn er þröngur, það er gífurlegur fjöldi af fólki sem er gangandi þarna og þá er ekkert gott að hafa bílana á milli. Það skapar bara hættu, þrátt fyrir að aðstæður séu í raun mjög góðar í dag. Í fyrra var hálka í garðinum og það getur auðvitað orðið stórslys ef einhver dettur og það er bíll á eftir svo við ákváðum að gera þetta svona og okkur fannst takast vel til í fyrra. Það var miklu afslappaðri stemmning niðri í garði þegar bílarnir voru ekki.“

Óvenju milt veður er í Reykjavík í dag.
Óvenju milt veður er í Reykjavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert