Eldur kom upp við Írafossvirkjun

Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Á fjórða tímanum í nótt fengu Brunavarnir Árnessýslu boð um að eldur væri kominn upp í tengivirki við Írafossvirkjun. Greiðlega gekk að slökkva eldinn, en starfsmenn Landsnets, sem á tengivirkið, þurftu að jarðtengja það áður en slökkvistarf gat hafist.

Í færslu brunavarna á Facebook segir að slökkviliðsmenn frá bæði Selfossi og Laugarvatni hafi verið boðaðir út. Eldurinn kom upp í mælaspenni og var töluverður eldur þegar starfsmenn komu á staðinn.

Þá segir einnig að töluverð olía hafi verið á staðnum og því mikil hætta til staðar þegar eldurinn hafi kviknað. Slökkvistarfi er nú lokið á staðnum.

Á Facebook-síðu Landsnets kemur fram að tegnivirki Írafossvirkjunar hafi orðið spennulaust í kjölfar brunans og voru allar vélar virkjunarinnar úr rekstri. Um klukkan sex voru allar vélar komnar inn á netið, en Ljósafosslína 1 er enn úti.

Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert