90% umferðar um Vaðlaheiðargöng

„Meirihlutinn hefur væntanlega verið að keyra fram og til baka …
„Meirihlutinn hefur væntanlega verið að keyra fram og til baka til að skoða,“ segir Valgeir. mbl.is/Þorgeir

„Fyrsta sólarhringinn fóru um 3.000 bílar um göngin miðað við þúsund bíla sem fóru um Víkurskarð daginn áður,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., í samtali við mbl.is um umferð í göngunum frá því þau voru opnuð 21. desember.

„Meirihlutinn hefur væntanlega verið að keyra fram og til baka til að skoða,“ segir Valgeir, en að síðan göngin opnuðu hefur verið þar stöðugur straumur þó bílafjöldi hafi ekki verið talinn.

„Það sést svosem á bílatalningunni um Víkurskarð að eftir að við opnuðum göngin hafa ekki farið þar nema um 60 til 100 bílar á sólarhring, svo öll önnur umferð hefur þá farið um göngin, líklega um eða yfir 90% allrar umferðar.“

Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri.
Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þessir 60 til 100 sem eru að fara Víkurskarðið eru líklega erlendir aðilar á bílaleigubílum, göngin hafa ekki verið auglýst og koma ekki upp á Google Maps,“ útskýrir Valgeir.

Tölur úr vegteljurum Vegagerðarinnar eru teknar saman mánaðarlega svo í janúar má líklega komast að því hversu mikil umferðin hefur verið um göngin, en af forvitni skoðuðu forsvarsmenn Vaðlaheiðarganganna hraðamyndavélar til þess að telja umferðina fyrsta sólarhringinn, sem eins og áður segir voru um 3.000 bílar.

„Svo kemur í ljós þegar gjaldtaka hefst, þá lýkur þessari forvitni fólks líklega,“ segir Valgeir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert