Hænsnahaldið bæði gaman og alvara

Hallgrímur Sigurðsson deildarstjóri flugfjarskipta hjá Isavia fylgist vel með hænunum.
Hallgrímur Sigurðsson deildarstjóri flugfjarskipta hjá Isavia fylgist vel með hænunum. mbl.is/​Hari

„Þetta er bæði gaman og alvara. Þetta er liður í umhverfisvottuninni og svo er þetta líka bara skemmtilegt og langflestir sem hafa gaman af,“ segir Hallgrímur Sigurðsson deildarstjóri flugfjarskipta hjá Isavia um hænur sem fyrirtækið er með við starfstöð sína í Grafarvogi.

Hugmyndina segir Hallgrímur hafa kviknað er Isavia var að vinna að umhverfisvottun, en flugfjarskipti Isavia fengu nú í haust ISO14001 vottun frá BSI, Bresku staðlastofnuninni, fyrst starfstöðva fyrirtækisins.

Flugfjarskiptin hafa nú lokið öllum fjórum grænum skrefum Umhverfisstofnunar og er hænsnahaldið liður í því. „Núna er það þannig hjá okkur að við endurnýtum hátt í 70% af öllu sem kemur hér í hús og erum að flokka sjö til átta mismunandi flokka af sorpi,“ segir Hallgrímur. Þeirri spurningu var hins vegar þá enn ósvarað hvað gera ætti við lífræna úrganginn og komu þá upp hugmyndir um hænsnahald og moltugerð. „Við fórum því í moltugerðina og svo ákváðum við að fá bara hænur líka.“

Hallgrímur segir mikla ásókn í eggin frá hænunum og sjálfur …
Hallgrímur segir mikla ásókn í eggin frá hænunum og sjálfur notar hann þau stundum til að baka vöfflur fyrir starfsfólk. mbl.is/​Hari

Oftast slegist um eggin

Fengin voru tilskilin leyfi hjá borginni fyrir hænurnar Toppu, Snæfríði, Skottu og Jógu og hænsnakofi reistur á lóðinni. Kettirnir í hverfinu voru nokkuð forvitnir um fiðurfénaðinn í fyrstu en eru nú steinhættir að koma í heimsókn.

„Þetta er frábært verkefni og skilar miklu,“ segir Hallgrímur og segir hænsnin líka vera jákvæða og skemmtilega viðbót fyrir starfsfólkið. „Starfsmenn hafa komið með börnin sín að skoða hænurnar og svo hafa leikskólar líka fengið að kíkja í heimsókn.“ Eins séu aðrir fuglar, m.a. þrastar og starrar, nú duglegir að kíkja við hjá Isavia eftir að þeir áttuðu sig á að þar væri matarbita að finna.

Hallgrímur segir flugfjarskiptin fá á annað hundrað egg á mánuði frá hænunum og segir hann yfirleitt slegist um að fá eggin. „Ég baka líka stundum vöfflur fyrir starfsfólkið og þá nota ég eggin, svo eru menn að sjóða sér egg og búa til eggjakökur.“

Vel er búið um hænurnar og þess gætt að hlýtt …
Vel er búið um hænurnar og þess gætt að hlýtt sé í kofanum yfir vetrartímann. mbl.is/​Hari

1,5 tonn af úrgangi fara í fuglana

Hann segir hænurnar líka duglegar að borða matarafgangana sem falla til. „Við erum að losa okkur við um 1,5 tonn á ári af úrgangi sem fer bara í fuglana,“ segir hann og bætir við að smáfuglarnir eigi líka sinn þátt í þeirri endurvinnslu.

Margir starfsmenn flugfjarskipta hafa gaman af að sinna fuglunum og segist Hallgrímur m.a. gera töluvert af því sjálfur. Þá sjái vaktavinnufólkið um það um helgar að nóg vatn og matur sé hjá fuglunum.

Hænurnar eru forvitnar, en hafa allar mismunandi mismunandi persónuleika og eru sumar mannelskari en aðrar. „Sumar eru farnar að borða úr lófunum á okkur,“ segir hann. „Svo þegar þeir sem gefa þeim oft koma út í garð þá koma þær á harðahlaupum.“

Gluggar á kaffistofu og eldhúsi starfsstöðvarinnar snúa út í garðinn og segir Hallgrímur það skapa jákvæða stemningu að fylgjast með fuglunum. „Þetta er svolítið eins og að vera í sveitinni.“

Þar sem lóð Isavia er stór og afgirt leikur blaðamanni forvitni á að vita hvort til standi að fjölga búfénaði. Hallgrímur telur það þó ólíklegt. „Menn hafa nú verið að grínast með að við ættum að fá okkur grís líka því þá gætum við fengið okkur beikon og egg, en það stendur nú ekki til,“ segir hann og hlær.

Flugfjarskipti Isavia hafa nú lokið öllum fjórum grænum skrefum Umhverfisstofnunar …
Flugfjarskipti Isavia hafa nú lokið öllum fjórum grænum skrefum Umhverfisstofnunar og er hænsnahaldið liður í því. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert