Púður sett í skógræktina

Í ár verður hægt að styrkja starfið hjá Landsbjörg með kaupum á græðlingum sem verða gróðursettir á Þorlákshafnarsandi af Skógræktarfélagi Íslands. Verkefnið nefnist Skjótum rótum og með tímanum mun rísa myndarlegur skógur þar sem nú er mikið berangur. 

Hugmyndin að verkefninu kom úr óvæntri átt en það var Rakel Kristinsdóttir sem fékk hugmyndina þegar hún var að skrifa Bs. ritgerð sína og umfjöllunarefnið var fjármögnun björgunarsveitanna. Á sama tíma hefur verið töluverð umræða um mengun vegna skotelda. Um 66% þjóðarinnar kaupir flugelda og í skoðanakönnunum hefur komið í ljós að 88% fólks er að styrkja málefnið með kaupunum. 

Rakel nálgaðist björgunarsveitirnar með hugmyndina og síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt en Rótarskotin verða til sölu á flugeldasölustöðum björgunarsveitanna fyrir áramót og kosta 3990 krónur. Þannig er hægt að kolefnisjafna flugeldana sem skotið verður upp um áramótin. Olís, Hekla og Íslenska Gámafélagið styrkja verkefnið ásamt auglýsingastofunni Hvíta húsinu.

Í myndskeiðinu er rætt við Rakel og Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóra Landsbjargar, og Jónatan Garðarsson, formann Skógræktarfélags Íslands, við Þorlákshafnarsand þar sem skógurinn mun rísa en hann mun heita Áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert