„Við fáum mjög fáar ábendingar um að verslanir taki ekki á móti vörum,“ segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri neytendaréttarsviðs hjá Neytendastofu, en búast má við að raðir myndist víða er verslanir opna á ný á morgun af fólki sem vill eða þarf að skila jólagjöfum sem sumar eru ekki af réttri stærð eða þegar til á heimilinu.
Hún segir Neytendastofu þó alltaf berast fyrirspurnir og ábendingar í kringum jól og útsölur. „Það er eins öruggt og að jólin koma.“
Engin lög eru varðandi skil á vörum, hvorki hér á landi né sérstakar Evrópureglur, nema varan reynist vera gölluð eða keypt á netinu. Almennt heimila verslunareigendur neytendum þó að skila vöru og fá inneignarnótu í staðinn og eru þær Þórunn og Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, sammála um að verslunareigendur reyni að sýna sanngirni í þeim efnum.
Einverjir annmarkar geta þó verið skilum, til að mynda að inneign jafngildi útsöluverði sé útsala hafin, eða ef fullt verð er greitt fyrir vöruna að þá ekki sé þá heimilt að nota inneignarnótuna fyrr en útsölu lýkur.
„Það eina sem við getum ráðlagt fólki er að fá skilamiða þegar það kaupir gjafir og kanna hvernig skilum er háttað. Það borgar sig síðan að skila og skipta vörunum sem fyrst, því útsölur hefjast fljótlega eftir jól,“ segir Þórunn og ráðleggur fólki að vera vel upplýst.
Brynhildur segir mikla breytingu hafa átt sér stað til batnaðar varðandi vöruskil, en áður hafi seljendur stundum verið í jafn miklum efa og neytendur varðandi skilaréttinn. „Það voru settar verklagsreglur um skilarétt árið 2001 og ég held að það hafi alveg ýtt einhverju af stað,“ segir hún.
„Mögulega hafa seljendur áttað sig á að byrja ekki með útsölurnar alveg strax milli jóla og nýárs. Það hljóp svolítið kapp í seljendur að vera fyrstir með útsöluna og þá lenti fólk í þessu,“ segir Brynhildur.
Skilaréttarmiðar sem settir eru á vörur eru líka af hinu góða og eins segir hún verslunareigendur almennt sýna því skilning eigi fólk þess ekki kost að skila vöru innan tilskilins frests.
„Ég bý úti á landi og mér finnst verslunareigendur sýna þessu skilning,“ segir Brynhildur. „Mér finnst seljendur eru vera almennt liðlegir hvað þetta varðar. Við viljum hins vegar gjarnan fá að heyra af því hjá neytendum ef þeir eru með eitthvað vesen.“
Segir hún þetta ekki hvað síst eiga við gjafabréf sem sumir fá í jólagjöf, en þó nokkuð af slíkum málum ratar inn á borð Neytendasamtakanna. „Oft eru þetta mál vegna fyrirtækja sem hafa farið á hausinn,“ útskýrir hún og kveður mörg mál til að mynda hafa hafa komið inn vegna gjafabréfa hjá Hótel Holti. „Svo eru það fluggjafabréfin sem við mælum alls ekki með. Það eru alltof mörg mál og alltof háar upphæðir sem liggja einhvers staðar í ónotuðum fluggjafabréfum.“
Kveðst Brynhildur raunar vilja sjá lög sett varðandi gjafabréf. „Því þar finnst mér að við getum farið hart fram.“
Er Þórunn er spurð hvort ekki sé talin þörf á að setja sérstakar lög og reglur um skilarétt segir hún einhver álitamál alltaf koma upp, en ekki hafi þó verið talin ástæða til að setja lög um málið.
Umræða hefur þó farið fram á alþingi um skilarétt og reglur honum tengdar og í fyrravetur var þá lögð fram tillaga, sem Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins var fyrsti flutningsmaður að, um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Á vef Alþingis kemur fram að þingheimur hafi í kjölfarið falið ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp sem taka átti verklagsreglurnar til endurskoðunar og skila tillögum til ráðherra í mars á næsta ári.
Sú vinna er þó væntanlega enn ekki hafin, þar sem Neytendasamstökin voru meðal þeirra sem tilnefna áttu í starfshópinn og kannast Brynhildur ekki við að það hafi verið gert.