Landsnet mun skipta út öllum þremur straumspennum í tengivirki Írafossvirkjunar en eldur kom upp í í tengivirkinu á jólanótt. Eldurinn kom upp í mælaspenni og varð sprenging í einum af þremur straumspennum tengivirkisins. Spennarnir eru frá árinu 1959 en virkjunin var gangsett árið 1953.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir í samtali við mbl.is að um lán í óláni sé að ræða þar sem varahlutir í straumspenna séu oft ekki til á lager. Ákveðið var að skipta öllum þremur út til að koma í veg fyrir eldsvoða eins og á jólanótt.
Áætlað að viðgerðin klárist fyrir helgi og í kjölfarið verður hægt að setja Ljósafosslínu 1 inn aftur. „Þetta er ekkert rosalega stórt verk þannig, við þurfum bara gott veður,“ segir Steinunn. Ekki þarf að kalla út auka mannskap vegna viðgerðarinnar.
Hún segir að það hafi verið töluvert áfall að fá fregnir af eldsvoðanum. „En þetta hefur gengið mjög vel. Það kom í ljós á jólanótt að það eru allir mjög vel æfðir. Þegar við fórum að skoða þetta betur á jóladag voru skemmdirnar ekki eins miklar og þær litu út í fyrstu. En svo er sót á tengivirkinu sem við þurfum að skoða með hvaða hætti við þrífum.“ Þá segir Steinunn að það jákvæða sem megi taka út úr þessu öllu saman er að enginn hafi þurft að vera án rafmagns á jóladag.