Mæla efnainnihald svifryks á áramótum

Svifryksmengun af völdum flugelda gæti orðið mikil yfir borginni um …
Svifryksmengun af völdum flugelda gæti orðið mikil yfir borginni um áramótin. mbl.is/​Hari

Tveimur sérstökum svifrykssöfnurum hefur verið komið fyrir á Grensásvegi og við Dalsmára í þeim tilgangi að safna svifrykssýnum á gamlárskvöld. Sýnin verða efnagreind á rannsóknarstofum bæði á Íslandi og erlendis til þess að greina efnainnihald svifryks á gamlárskvöld.

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur á sviði loftgæðamála hjá Umhverfisstofnun, segir að þetta sé í fyrsta sinn sem efnainnihald svifryks er mælt með þessum hætti á gamlárskvöld á svæðunum tveimur. Einu sinni áður hefur svifryk verið mælt með þessum hætti á gamlárskvöld, en það var um síðustu áramót á mælistöð sem var staðsett við áhaldahús Hafnarfjarðar að Norðurhellu.

Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Ljósmynd/Aðsend

„Við búumst við einhverri hækkun á mörgum efnum,“ segir Þorsteinn en hann segir það ráða miklu hvernig viðrar á gamlárskvöld upp á niðurstöðu mælingarinnar að gera. „Ef það er vindur þá verður þynning og við fáum ekki eins há gildi. Við búumst við háum svifryksgildum á gamlárskvöld, en ef vindur er hægur verða gildin hærri,“ segir hann.

Hann segir að niðurstöður mælingarinnar við Norðurhellu um síðustu áramót hafi leitt í ljós mikla aukningu margra efna í andrúmslofti, þar á meðal í blýi, en toppurinn hafi þó ekki talist hár. „Magnið var vel undir heilsuverndarmörkum,“ segir Þorsteinn.

Flugeldar frá Tjörninni í Reykjavík.
Flugeldar frá Tjörninni í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Að sögn Þorsteins innihéldu flugeldar hér áður þungamálma sem framleiðendur settu í púðrið til þess að ná fram ákveðinni litasamsetningu. Í dag er slíkt þó bannað en heldur Umhverfisstofnun úti eftirliti með flugeldum. „Við tókum í fyrra sýni og mældum blýið. Það var eitt sýni með íbættu blýi en önnur ekki,“ segir Þorsteinn.

Áramótamengunin skaðleg

Í umfjöllun sem birtist í Morgunblaðinu í morgun í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að margir séu viðkvæmir fyrir breytingum á loftgæðum og finna fyrir einkennum til dæmis frá lungum.

„Mengunin um áramót er mikil og margföld á við svifryksmengun aðra daga. Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands er svifryksmengun í Reykjavík um áramótin um 500 míkrógrömm á rúmmetra þegar við skjótum upp flugeldum sem alla jafna er yfir 600 við brennur landsins. Allt yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra er yfir heilsuverndarmörkum,“ segir í umfjölluninni en í svifryki geta verið þungamálmar líkt og blý, kopar, sink og króm.

Fjölmargir lungnasjúklingar leita á bráðamóttökur og á heilsugæsluna um og eftir hver áramót vegna einkenna svifryksmengunar. Talið er að 5-10% landsmanna séu með lungnasjúkdóm sem er viðkvæmur fyrir svifryksmengun. Mengunin um áramót er það mikil að hún hefur áhrif að frískt fólk getur fundið fyrir áhrifum á öndunarfærin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert