Met var slegið í heimsóknum á Læknavaktina helgina fyrir aðfangadag, hinn 22. og 23. desember.
Hátt í 540 manns leituðu læknisaðstoðar þar hvorn dag en aldrei hefur áður verið jafnmikið álag á Læknavaktinni yfir hátíðarnar, að sögn Gunnlaugs Sigurjónssonar, lækningaframkvæmdastjóra Læknavaktarinnar.
Á aðfangadag leituðu um 200 manns á Læknavaktina en þá er oftast töluvert minna álag en dagana fyrir jól. Þegar Morgunblaðið ræddi við Gunnlaug annan í jólum sagðist hann búast við því að annasamt yrði á Læknavaktinni þann dag.
„Nú er að ganga töluvert mikið af öndunarfærasýkingum og pestum, svo er RS-veira að ganga hjá börnum og inflúensan er byrjuð að stinga sér niður,“ segir Gunnlaugur en hann telur marga hafa veikst af inflúensu viku fyrir jól.