Áfengi, tóbak og eldsneyti hækka í verði

Grafík/mbl.is

Líkt og oft áður hækka hin ýmsu gjöld nú um áramót hjá hinu opinbera. Ýmis krónutölugjöld taka breytingum í upphafi árs 2019. Gjöld á eldsneyti, áfengi og tóbak hækka t.a.m. almennt um 2,5%. Hækkunin er minni en sem nemur áætlaðri verðbólgu á næsta ári og lækka gjöldin því að raungildi að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins. 

Eldsneytisgjöldin hækka

Samkvæmt upplýsingum frá FÍB mun bensínverð hér á landi hækka um 3,3 krónur á lítra um áramótin og mun lítrinn af dísilolíu hækka um 3,1 krónu á lítra. FÍB ráðgerir að bensínverð miðað við núverandi útsöluverð og álagningu hækki úr 221,8 krónum í 225,10 krónur á lítra og dísilolía úr 225,3 krónum í 228,4 krónur á lítra. Í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum hækkar kolefnisgjald um 10%, úr 9,10 í 9,95 krónur á lítra hvað bensín varðar. Kolefnisgjald á dísilolíu hækkar úr 9,45 í 10,40 krónur. Olíugjald hækkar um 2,5%, úr 61,3 krónum í 62,85 krónur á lítra. Virðisaukaskattur leggst síðan ofan á þessi gjöld. Bifreiðagjald hækkar þar að auki um 2,5% um áramótin.

Strætó uppfærir gjaldskrá sína á nýju ári í takt við verðlagsþróun, um 3,9% að meðaltali. Almennt staðgreiðslugjald og stakt fargjald í strætó-appinu verður 470 krónur eftir breytingu. Árskort í strætó kostar 66.400 krónur.

Gjöld á áfengi og tóbak hækka

Áfengis- og tóbaksgjöld hækka almennt um 2,5%. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR um vænt útsöluverð sem miða við óbreytt verð frá birgjum mun karton af sígarettum, sem á þessu ári kostaði 10.455 krónur, á næsta ári kosta 10.635 krónur og hækka um 1,7% í verði. 50 gramma neftóbaksdós hækkar í verði um 2,1% og mun kosta 2.479 krónur samanborið við 2.428 krónur á þessu ári. 

Hálfur lítri af bjór sem kostar 379 krónur mun eftir breytingu kosta 385 krónur. Flaska af rauðvíni sem áður kostaði 1.999 krónur kostar á næsta ári 2.029 og 700 millilítra vodkaflaska sem kostar 5.499 krónur kostar á nýju ári 5.620 krónur.

Útvarpsgjald hækkar um 2,5% og verður 17.500 krónur og hið sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra sem verður 11.454 krónur. 

Lánsskírteini á bókasafni hækkar um 19%

Ýmsar breytingar verða gerðar á gjaldskrám Reykjavíkurborgar um áramót. Hækkanir miða við að tekjur á hverju fagsviði borgarinnar hækki miðað við verðlagsforsendur fjárhagsáætlunar, 2,9%. 

Lánsskírteini á Borgarbókasafni Reykjavíkur hækkar um 19% og mun kosta 2.500 í stað 2.100 króna áður. Börn og unglingar undir 18 ára aldri, eldri borgarar og öryrkjar greiða þó ekki fyrir skírteini. Aðgangseyrir á Listasafn Reykjavíkur hækkar um 9,1%, úr 1.650 í 1.800 krónur.

Stakt gjald í sund í höfuðborginni fyrir fullorðna hækkar um 2% og verður 1.000 krónur. Aðgöngueyrir fyrir börn er óbreyttur, 160 krónur. 20 miða kort fyrir fullorðna hækkar um 4,3% og kostar 8.450 krónur. 10 miða kort barna hækka um 3% og kostar 1.030 krónur.

Fjögurra mánaða vetrarkort á ylstrandir kostar 6.700 krónur og hækkar um 3,1% frá því á þessu ári. Gjald barna í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn hækkar um 3% og verður 680 kr. Gjald fullorðinna hækkar um 2,3%, verður 900 kr.

Ýmis gjöld vegna þjónustu frístundaheimila hækka um 2,9% sem og máltíðir í grunnskólum og sumarnámskeið svo dæmi séu nefnd. Leikskólagjöld og fæðisgjöld á leikskólum hækka einnig um 2,9%.

Bílastæðagjöld á gjaldsvæði 1 hækka um 15,6%, úr 320 krónum í 370 krónur og um 11,8% á öðrum gjaldsvæðum, úr 170 krónum í 190 krónur. Íbúakort hækka um 6,7%, úr 7.500 krónum í 8.000 krónur.

Heimaþjónusta aldraðra hækkar um 2,5% og kostar hver klukkustund á nýju ári 1.235 í stað 1.205 króna á þessu ári.

Ýmsar breytingar í skattheimtu um áramótin

Persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskatts einstaklinga taka breytingum í upphafi árs. Persónuafsláttur hækkar um 4,7%, þar af um 3,7% vegna lögbundinnar verðlagsuppfærslu og um 1% samkvæmt sérstakri lagabreytingu til bráðabirgða. Hækkun fjárhæðarmarka milli skattþrepanna fyrir árið 2019 verður miðuð við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu og verður því 3,7% milli áranna 2018 og 2019. Fjárhæðarmörk milli þrepa hækka úr 893.713 krónum í 927.087 krónur á mánuði og verða skattþrepin áfram tvö og skatthlutföll tekjuskatts óbreytt.

Skattleysismörk í staðgreiðslu hækka um 4,7% og verða rúmlega 159 þúsund krónur á mánuði að teknu tilliti til frádráttar 4% iðgjalds í lífeyrissjóð.

Fjárhæðir barnabóta hækka um 5% milli áranna 2018 og 2019 og tekjuskerðingarmörk um rúmlega 24% milli ára. Þá verður tekjuskerðing aukin hjá tekjuhærri fjölskyldum. Fjárhæðir vaxtabóta hækka um 5% og eignarmörk bótanna um 10% milli ára.

Skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækkar um 0,25 prósentustig í byrjun árs 2019, úr 5,40% í 5,15%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert