Eru ekki „varðhundar flugelda“

Smári Sigurðsson, formaður Landsbjargar.
Smári Sigurðsson, formaður Landsbjargar. mbl.is/Styrmir Kári

Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir að björgunarsveitir séu ekki „sérstakir varðhundar flugelda“. Samt sem áður muni þær eftir megni verja ávinninginn sem fer í verkefnin sem sveitirnar leysa af hendi, enda hafi ekki fundist önnur leið til fjármögnunar þeirra.

„Afrakstur af flugeldasölu björgunarsveita er ekki „handa björgunarsveitum” heldur til þess að hægt verði að halda uppi viðundandi björgunar- og almannavarnaviðbragði í landinu,“ skrifar Smári Sigurðsson á Facebook-síðu Landsbargar.

„Það þarf að skoða báða enda tommustokksins þegar rætt er um afleiðingar flugelda, ræða kostina og gallana, og hvar hagsmunirnir eru meiri eða minni. Fjármögnun viðbragðs björgunarsveita er ekki einkamál sjálfboðaliðanna að leysa.“

Smári segir hægt að treysta því að félagar hans í björgunarsveitunum séu alltaf tilbúnir til aðstoðar, allan sólarhringinn.

„Mikið hefur mætt á okkar fólki og þau víða komið við á árinu. Samfélagið yrði brothættara ef þeirra nyti ekki við. Til þessa hefur ríkt ágæt sátt um samstarfið þar sem íbúar og fyrirtæki í hverju sveitarfélagi hafa lagt björgunarsveitinni lið og á móti eru sjálfboðaliðarnir til í að leggja heilmikið á sig til að gera landið byggilegra. Stuðningur ykkar við björgunarsveitirnar er jafnmikilvægur og stuðningur þeirra við samfélagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert