Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar er meðal stærstu úrlausnarefna yfirstandandi kjaraviðræðna og er áberandi í kröfugerð verkalýðsfélaganna. VR og iðnaðarmannafélögin vilja stytta vinnuvikuna í 35 stundir án skerðingar launa. Krafa er um að þak verði sett á fjölda yfirvinnustunda til að tryggja raunstyttingu vinnuvikunnar. Félögin í Starfsgreinasambandinu ganga lengra og vilja stytta dagvinnutímann um sem nemur einum átta stunda vinnudegi í viku, þ.e. að markvisst verði stefnt að styttingu úr 40 stundum í 32 á samningstímanum.
Samtök atvinnulífsins hafa líka lagt áherslu á að samkomulag um sveigjanlegri vinnutíma geti skilað stórum ávinningi í kjarasamningum ef tekst að færa launakostnað vegna yfirvinnu inn í dagvinnugrunninn. Ljóst er að brúa þarf stóra gjá milli viðsemjenda ef takast á að tryggja raunverulega styttingu vinnuvikunnar enda langur vinnutími og yfirvinna með því lengsta sem þekkist í OECD-löndum.
47 ár eru liðin frá því að vinnuvikan var stytt í 40 stundir með lögum árið 1971. Reyndin varð þó sú að raunverulegur vinnutími launafólks styttist lítið, launahlutföllin breyttust og stærri hluti vinnunnar færðist yfir í yfirvinnu. Nýjar og nýlegar launakannanir stéttarfélaganna meðal félagsmanna sýna að stór hluti launafólks vinnur enn langan vinnudag. Hjá Eflingu, næststærsta stéttarfélagi landsins, hefur vinnutíminn lengst milli ára um tæplega eina klukkustund á viku skv. nýrri launakönnun félagsins. Að meðaltali vinna Eflingarfélagar 46,8 stundir á viku og karlar vinna fimm klukkustundum lengur en konur. Þar er vinnutíminn hvað lengstur hjá bílstjórum eða 54,2 stundir.
Þróunin hefur þó verið önnur meðal verslunar- og skrifstofufólks í VR, stærsta stéttarfélaginu, en þar hefur vinnutíminn styst á þessu ári og er kominn undir 43 stundir á viku að meðaltali í fyrsta skipti frá því að félagið lét fyrst gera launakannanir meðal félagsmanna.
Iðnaðarmenn leggja mikla áherslu á styttingu vinnutímans í kröfugerð sinni og ekki að tilefnislausu. Í launakönnun Rafiðnaðarsambandsins kom t.a.m. í ljós að 15,5% rafiðnaðarmanna unnu fleiri en 200 klukkustundir í einum mánuði sl. haust og þriðjungur þeirra var 176 til 200 stundir í vinnunni í mánuðinum sem könnunin var gerð.
Vinnutími launafólks er mislangur eftir starfsstéttum og greinum. Ef rýnt er t.a.m. í launakönnun sem Matvís lét gera, en félagsmenn þess eru iðnaðarmenn í matvæla- og veitingagreinum, kemur í ljós að meðalvinnutími þeirra er rúmar 48 stundir á viku. Lengstur er hann á hótelum og gististöðum þar sem félagsmenn unnu að jafnaði rúmlega 50 klukkustundir í hverri viku. 14% félagsmanna í Matvís sem starfa á hótelum og gististöðum unnu 61 eða fleiri tíma á viku og vinnuvika ríflega fjórðungs félagsmanna er á bilinu 51 til 60 stundir. 44% félagsmanna sem eru í námi eða á námssamningi í matvælagreinum eru í vinnunni í 51 tíma eða lengur í viku hverri.
Eining-Iðja á Akureyri er þriðja stærsta stéttarfélagið innan vébanda ASÍ. Meðalvinnutími félagsmanna þess er 44,8 stundir í viku og að jafnaði vinna félagsmenn í Einingu-Iðju tíu tíma til viðbótar í yfirvinnu í hverri viku skv. könnun félagsins.