Þykir óskaplega vænt um Andra

Ólafur Darri Ólafsson leikur eitt aðalhlutverkið í Ófærð. Hann hefur …
Ólafur Darri Ólafsson leikur eitt aðalhlutverkið í Ófærð. Hann hefur átt viðburðaríkt ár og m.a. leikið víða erlendis á árinu. mbl.is/Ásdís

Hann er kominn á undan mér á kaffihúsið og situr pollrólegur úti í horni, þessi mikli listamaður með stóra skeggið og úfna hárið. Ólafur Darri Ólafsson situr með bakið í gluggann og það er enn myrkur úti þótt klukkan sé að ganga ellefu. Birtan frá jólaljósunum sem hanga yfir honum mýkir allt; líka andrúmsloftið. Ólafur Darri er vel þekktur; jafnvel heimsfrægur á Íslandi og óhætt er að segja að hann hafi náð inn að hjartarótum á þjóðinni. Ekki bara fyrir stórgóðan leik heldur líka fyrir sinn mikla sjarma.

Að hanga með Jennifer Aniston

Árið sem er að líða hefur verið sérlega viðburðaríkt hjá Ólafi Darra. Fyrri hluta árs var hann í tökum á Ófærð II en við komum að því síðar. Sumrinu eyddi hann í tökum á kvikmyndinni Murder Mystery sem skartar tveimur af skærustu stjörnum Hollywood, þeim Jennifer Aniston og Adam Sandler. Ólafur Darri útskýrir að Murder Mystery sé gamanmynd með morðgátu í anda Agöthu Christie, gerð fyrir Netflix.

„Já, þetta ár hefur verið viðburðaríkt. Fyrri hluta árs fór ég til Suður-Afríku að gera sjónvarpsseríuna The Widow; að því loknu kláraði ég Ófærð og eftir það byrjuðu tökur á Murder Mystery,“ segir hann.

„Ég var í tökum í Montreal í rúman mánuð og þaðan fór ég til Ítalíu og var þar í rúmar tvær vikur. Það var frekar frábært! Vinnan mín býður stundum upp á mikil ævintýri,“ segir Ólafur Darri.

„Þetta var stór leikhópur og við vorum mikið saman sem er ekki endilega algengt. Við hittumst mikið eftir tökur, fórum út að borða og vorum bara að hanga saman,“ segir Ólafur Darri en hann leikur lítið hlutverk í myndinni.

„Ég er í nokkrum senum og leik Rússa sem var mjög skemmtilegt. Með mína vondu útgáfu af rússneskum hreim,“ segir hann og brosir.

Ertu skúrkurinn frá Rússlandi?

„Tja, ég vil ekki segja mikið um það, það kemur bara í ljós,“ segir hann sposkur.
Ólafur Darri segist lengi hafa dáð bæði Sandler og Aniston og því hafi ekki verið leiðinlegt að fá tækifæri til að vinna með þessum frábæru gamanleikurum.

„Þetta var mjög skemmtilegt. Mér finnst Adam Sandler algjörlega frábær, ekki síst í myndum eins og Happy Gilmore og The Wedding Singer. Og ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Jennifer Aniston.“

Þegar hann hitti hana fyrst fyrir þó nokkrum árum segist hann hafa orðið gjörsamlega „stjörnusleginn“ og ekki komið upp orði en í þetta sinn gekk þetta betur. En óneitanlega segir hann það hafa verið skrítið að vinna með henni eftir að hafa horft á alla Friends-þættina mörgum sinnum í gegnum árin.

Það hlýtur að vera súrrealískt að fara svo bara út að borða með henni eftir vinnudaginn og fíflast eins og vinir?

„Það var það!“

„Ég er með sjálfan mig í „meðferð“; er að passa …
„Ég er með sjálfan mig í „meðferð“; er að passa að hafa báða fætur á jörðinni, vera þakklátur fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið. Ég er að passa upp á að beisla egóið, það er auðvelt að týnast í því í þessum skrítna kvikmyndaheimi. Þú ert kannski með hóp af fólki allt í kringum þig sem er í vinnu við að sjá til þess að þér líði vel á setti og þig vanhagi ekki um neitt. Ég hef mikinn metnað og mjög stórt egó og ég er að reyna að berja á því,“ segir Ólafur Darri Ólafsson. mbl.is/Ásdís

Hryllingsfantasía húsvarðarins

Haustinu eyddi Ólafur Darri í Rhode Island þar sem tökur fóru fram á bandarískri sjónvarpsseríu sem kallast NOS4A2. Hann bjó í húsi við ströndina og undi hag sínum vel þar.

„Þetta er búið að vera yndislegt; haustið í New England er engu líkt. Það er mikið skóglendi þarna og trén skarta öllum heimsins litum. Fjölskyldan kom og dvaldi hjá mér stóran hluta af tímabilinu og það var mjög dýrmætur tími,“ segir Ólafur Darri og bætir við að fólk geti átt von á spennandi þáttum.

„Þetta er sería byggð á bók eftir Joe Hill en hann hefur skrifað nokkrar bækur og er mjög lunkinn höfundur. Hann er kannski frægastur fyrir að vera sonur pabba síns, Stephen King, en Joe er sjálfur mikill penni. Þetta er áhugaverð blanda af dramatískri fjölskyldusögu og hryllingsfantasíu,“ segir Ólafur Darri, en hann leikur eitt af aðalhlutverkunum, húsvörðinn Bing Partridge.

„NOS4A2 er í raun bílnúmer en um leið vísun í Nosferatu sem er frægasta vampírubíómynd allra tíma, frá 1922 og er alveg „super scary“ enn þá. Svolítið skemmtilegur titill.“
Tökur hafa staðið yfir í allt haust og stefnir allt í að þær klárist nú í janúar. Sýningar hefjast á AMC í júní á næsta ári en þættirnir eru tíu.

Frægðin er frekar leiðinleg

Hvernig finnst þér að vera frægur á Íslandi?

„Frægðin gerir ekki mikið fyrir mann, hún er frekar leiðinleg hliðarafurð af því sem ég geri.“
Blaðamaður nefnir að hún komi honum kannski áfram í næstu verkefni.

„Á Íslandi held ég að hún geri það ekkert endilega. Við búum í svo litlu landi og leiklistariðnaðurinn er svo lítill að það er ekki nóg að vera bara frægur ef viðkomandi er ekki góður í því sem hann gerir. Þeir sem eru að ráða í hlutverkin eru ekki að gera það á þeim forsendum að eitthvert þekkt nafn gulltryggi að bíómynd fái mikla aðsókn. Það skemmir kannski ekki fyrir að hafa nöfn okkar frægustu leikara á bíómynd, eins og Ingvars eða Hilmis, en það tryggir ekki neitt. Það er svo oft talað eins og frægðin sé svo eftirsóknarverð og stundum eins og það skipti ekki máli fyrir hvað. Í þessum bransa, og ég held ég tali fyrir hönd langflestra minna kollega, viljum við vera þekkt fyrir það sem við höfum gert. Í svona litlu markaðssamfélagi eins og Íslandi og ef þér er alvara með að vera góður leikari og leggur hart að þér, kemur það þér langt. Miklu lengra en einhver frægð. En úti í hinum stóra heimi getur frægðin reyndar skipt máli,“ segir hann og nefnir að hann hafi hugsað mikið um gildi þess að vera listamaður.

„Ég hef í gegnum tíðina öðlast áhuga á heimspekilegum tilgangi listarinnar og tilgangi listamanna og velt fyrir mér siðferðislegum markmiðum listamannsins ef þau eru einhver. Ábyrgð listamanna liggur í því sem þeir gera, að þeir sýni hugrekki, að þeir þori að leggja sig til hliðar til að geta sagt sögur. Sögurnar eru alltaf mikilvægari en sögumaðurinn. Þetta er svona það sem er að malla í kollinum á mér.“

„Ég hef stundum sagt að uppáhaldsaugnablikin mín í Ófærð I, …
„Ég hef stundum sagt að uppáhaldsaugnablikin mín í Ófærð I, þegar ég horfði á hana, voru þessi samskipti á milli Hinriku og Andra, og Andra og Ásgeirs,“ segir Ólafur Darri en hann leikur á móti Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari Sigurðssyni í Ófærð. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Dramatísk fjölskyldusaga

Ófærð II fór í loftið annan í jólum og er óhætt að segja að þjóðin sé spennt fyrir framhaldinu. Tökur hófust í október 2017 og stóðu fram á vor 2018.

„Þetta gekk ótrúlega vel og auðvitað var frábært að búa að reynslunni. Þegar við gerðum fyrstu seríuna kom það mér á óvart hvað þetta var langt og erfitt ferli. Þetta voru sex mánuðir af stífri vinnu, það er að segja við upptökurnar. Ferlið allt tekur mörg ár. Þar af leiðandi var svo ótrúlega góð tilfinning að sjá hvað Ófærð mæltist vel fyrir og fór víða,“ segir hann.

Hvað er það við Ófærð sem heillar fólk?

„Þetta er góð saga og vel gerð. Balti ber ábyrgð á heildarsögunni og þetta er frábær hugmynd. Hann fær svo til sín gott fólk, eins og Sigurjón Kjartans og fleiri sem skrifa með honum.“

Kannski er það líka þessi norræni drungi?

„Algjörlega, ég held líka að fólk sé forvitið að sjá hvernig fólk lifir á litlum kletti lengst norður í Atlantshafi. Ísland er líka núna „hipp og kúl“ land. Þar spilar auðvitað náttúran hlutverk en líka tónlistarfólkið okkar, eins og Björk, Sigur Rós og aðrir. Fólk er spennt fyrir þessum heimi. En það sem fær fólk til að halda áfram að horfa er að þetta er fjölskyldusaga í grunninn,“ segir hann.

„Svo er þetta auðvitað spennandi glæpasaga, en það er fólkið og samböndin sem heilla mest. Af því að fólk alls staðar í heiminum er að glíma við fjölskylduvandamál. Og Ófærð er í grunninn mjög dramatísk fjölskyldusaga sem nær manni,“ segir hann.

Ólafur Darri hefur haft í nógu að snúast á árinu …
Ólafur Darri hefur haft í nógu að snúast á árinu sem er að líða. mbl.is/Ásdís


Hvað gerist í Ófærð II?

„Nú verð ég að reyna að muna hvað má segja! Það gerist mjög margt í Ófærð II en það sem gleður mig kannski mest er að við fáum að halda áfram að fylgjast með Andra, Hinriku, sem Ilmur Kristjánsdóttir leikur, og Ásgeiri, leiknum af Ingvari.

Hvernig var að heimsækja aftur Andra og halda áfram að skapa þann karakter?

„Mér fannst það æðislegt, mér þykir óskaplega vænt um hann Andra. Ég hafði ákveðna samúð með honum í fyrstu seríu; fannst hann settur í hálfvonlausa aðstöðu. Ég hlakkaði mikið til klæða mig aftur í úlpuna, ekki síst vegna sambandanna. Ég hef stundum sagt að uppáhaldsaugnablikin mín í Ófærð I, þegar ég horfði á hana, voru þessi samskipti á milli Hinriku og Andra, og Andra og Ásgeirs. Ég sé að þessi litlu augnablik eiga sér langa forsögu og ég sé sérstaklega þessa miklu dýnamík á milli Hinriku og Andra. Hún er frekar lágvaxin og ég er frekar stór en maður finnur að á milli þeirra ríkir jafningjasamband. Ilmur er náttúrlega snilldarleikkona,“ segir hann.

„Annars er ég bara eins og aðrir, hlakka til að sjá! Ég veit að þetta verður gott, með Baltasar þarna fremstan í flokki, hann hefur svo mikinn metnað og er ósérhlífinn.“

Snjó sópað af Austurvelli

Aðspurður hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis við tökur Ófærðar II þarf Ólafur Darri að hugsa sig aðeins um.

„Jú, ég er með eina góða sögu. Sagan á að gerast um haust en tökur voru frá hausti og yfir á vetur. Það var eiginlega bara snjór á jörðu frá október og fram í febrúar. Við áttum eftir að taka nokrar stórar snjólausar útisenur, og sérstaklega eina sem var skotin á Austurvelli. Við vorum komin í þrot með það og niðurstaðan var að fresta tökum á senunni í mánuð. Og auðvitað, íslenskt veður er dásamlegt, um leið og þessi ákvörðun var tekin leysti snjó. Það var enginn snjór í mánuð. Svo byrjuðum við að skjóta í byrjun maí og hvað gerðist! Þá náttúrulega byrjaði að snjóa. Menn voru að sópa snjóinn af Austurvelli,“ segir hann og hlær.

Þar sem við stöndum upp frá borðinu vindur kona nokkur sér að Ólafi Darra. Hún hafði fengið forskot á sæluna og séð fyrstu tvo þætti Ófærðar II í bíó kvöldinu áður og vill þakka honum. Miðað við orð hennar á þjóðin eftir að eiga góðar stundir í skammdeginu yfir sjónvarpinu, að fylgjast með Andra og Hinriku og öllum hinum í Ófærð.

„Til hamingju með sýninguna í gær, svakalega flott! Ég er enn með gæsahúð!“

Ólafur Darri ljómar.

„Takk! Þakka þér kærlega fyrir að segja þetta, en gaman!“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert