Ásmundur lauk göngunni löngu

Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar og Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks …
Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar og Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks að göngu lokinni í dag. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Ásmundar

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lauk í dag við síðasta spölinn á göngu sinni, kjördæmið á enda. Alls gekk Ásmundur um 700 kílómetra langa leið um kjördæmið á árinu sem er að líða, frá Hvalnesskriðum í austri að Garðskagavita í vestri.

Þingmaðurinn segir að um 40 manns hafi gengið með honum síðasta spölinn í dag, en gangan hófst á bænastund í Keflavíkurkirkju þar sem Sr. Erla Guðmundsdóttir fór með ferðabæn fyrir hópinn.

Hann segir í samtali við mbl.is það hafa komið á óvart hve margir slógust í för með honum er hann lauk göngunni í dag, en gangan frá Keflavíkurkirkju og að Garðskagavita tók um tvær klukkustundir og tuttugu mínútur.

„Það var góð tilfinning að snerta Garðskagavita og ljúka þannig 700 km göngunni með öllu þessu góða fólki sem deildi gleðinni með mér,“ skrifar Ásmundur á Facebook-síðu sína, en að göngunni lokinni beið Sigríður Magnúsdóttir eiginkona Ásmundar svo með heita súpu handa öllum hópnum á Byggðasafninu í Garði.

„Ég þakka öllum sem lagt hafa mér lið á göngunni. Margir hafa keyrt mig og sótt víða um kjördæmið en göngutíminn hefur ekki alltaf verið á kristilegum tíma. Oft lagði ég af stað fjögur á morgnanna til að losna við mestu umferðina,“ segir Ásmundur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert