Bílstjóri og fimm farþegar sluppu án meiðsla þegar að smárúta sem ekur Strætóleið númer 59 fór út af veginum við Skógskot á Vesturlandi og valt síðdegis í dag. Fréttavefur RÚV greindi fyrst frá þessu en Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Guðmundur segir að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi fengið rétt í þessu séu allir heilir á húfi og á leið í Borgarnes, þangað sem ferðinni var heitið.
Leiðindaveður og –færð var á svæðinu er óhappið átti sér stað, en lögreglan á Vesturlandi og verktakinn sem ekur þessa leið fyrir Strætó komu á vettvang, lögregla til að rannsaka óhappið en verktakinn til þess að koma farþegunum á áfangastað.
„Við þökkum fyrir það að allir hafi verið í beltum og að ekki hafi farið ver,“ segir Guðmundur, en smárútan verður líklega dregin upp á morgun.
Uppfært kl. 20:39: Um var að ræða smárútu sem ekur leið 59 hjá Strætó, frá Hólmavík til Borgarness, en ekki leið 58, sem ekur í Stykkishólm. Öllum farþegum var ekið til Reykjavíkur, en það var lokaáfangastaður þeirra allra, samkvæmt upplýsingum frá Strætó. Skemmdir á smárútunni eru afar litlar.