Mary Poppins Returns frá afþreyingarrisanum Disney er ein af jólamyndunum í ár. Myndin er framhald af upprunalegu myndinni um barnfóstruna ráðgóðu sem kom út árið 1964. Viðtökurnar hafa verið nokkuð góðar og er hún talin verða áberandi á verðlaunahátíðum Vestanhafs á næstu vikum.
Tæknibrellur leika stórt hlutverk í myndinni og einn af þeim sem lögðu þar hönd á plóg er Bragi Brynjarsson sem hefur frá árinu 2012 starfað í geiranum hjá Framestore, sem er eitt umsvifamesta fyrirtækið í faginu. Allt upplýsingastreymi í tengslum við Hollywood-verkefni af þessari stærðargráðu er takmarkað en Bragi, sem er búsettur í Montreal þar sem Framstore er með skrifstofur, gat þó svarað nokkrum spurningum um það fyrir mbl.is.
Hvað getur þú sagt mér um Framstore fyrirtækið?
Framestore er eitt af stærstu eftirvinnslu fyrirtækjum í kvikmyndabransanum með um 2400 starfsmenn út um allan heim, þar af 650 í Montreal. Mikil áhersla er lögð á gæði og allt efni sem fer úr húsi er grandskoðað til að tryggja að það sé 100% tæknilega rétt. Þeir voru einu sinni með útibú á Íslandi og þar byrjaði ég. Skrifstofan í Montreal hefur stækkað gífurlega hratt en við vorum um það bil 300 þegar ég flutti 2016.
Mary Poppins er ein af tíu kvikmyndum koma til greina fyrir tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestu tæknibrellur en Framestore Montreal kom að gerð tveggja annara af þeim lista; Christopher Robins og Welcome To Marwen.
Hvenær byrjaði áhuginn að myndast og hver voru fyrstu skrefin í bransanum?
Ég hafði alltaf mikinn áhuga á bíómyndum, þáttum og tölvuleikjum í æsku en sá aldrei fyrir mér að elta starfsframa á því svið fyrr en ég fór að fikta við þrívídd og hreyfimyndagerð. Ég skráði mig í Margmiðlunarskólann og að því loknu fór ég í nám við skólann Campus i12 í Svíþjóð þar sem ég sérhæfði mig í Digital Compositing. Besta íslenska heitið sem ég hef fundið fyrir það er líklega stafræn samsetning en starfsheitið er yfirleitt bara kallað „kompari“.
Ég byrjaði í sumarvinnu hjá Framestore árið 2012 þegar þeir voru enþá með útibú á Íslandi. Daði Einarsson stýrði því og á þeim tíma var Framestore á fullu við að gera Gravity. Ég var þá hálfnaður með námið í Svíþjóð og náði að betla lærlingsstöðu fyrir sumardvölina heima. Daði átti stóran þátt í undirbúningsferlinu á Gravity en þegar ég kem til Framestore þá er búið að skjóta og byrjað að vinna á fullu við að klára myndina. Mestan part þess sumar vann ég við þá mynd og fékk að kynnast öllu því frábæra fólki sem vann þar.
Í lok sumars fór ég aftur í nám í Svíþjóð en seinasta önnin er tekin í starfsnámi og samdi ég við Framestore um að koma aftur í nóvember og vann við kvikmyndina 2 Guns sem kláraðist sumarið árið eftir. Á þessum tíma var fyrirtækið að breytast úr því að vera lítið Framestore útibú í að vera hið íslenska eftirvinnslu fyrirtæki RVX.
Lítið var um verkefni strax eftir 2 Guns svo ég fór í stutta stund til Caoz sem var að gera teiknimyndaþættina Elias ásamt að taka að mér verkefni fyrir Borgarleikhúsið þar til snemma árs 2014 þegar ég fór aftur til RVX og við byrjuðum að vinna að Everest og síðan Ófærð. Þessir tímar hjá RVX voru frábærir og Everest verkefnið sjálft lang erfiðasta og jafnframt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í.
Þar unnum myrkrana á milli svo mánuðum skipti við þessa risastóru kvikmynd sem reyddi mikið á tæknibrellurnar okkar. Það var mjög skemmtileg upplifun að vera partur af þessu teymi og að gera Hollywood myndir heima á Íslandi. Ég er mjög þakklátur þessum tíma hjá RVX og sú reynsla hjálpaði mikið við að komast að í útlöndum þegar verkefnin þornuðu upp heima. RVX hafði mest megnis snúið sér að sýndarveruleika verkefnum og þá var lítið annað í stöðunni en að flytja út.
Tæknibrellugeirinn er mjög stór í Kanada og flutti ég fyrst til Vancouver. Þar vann ég við myndirnar Suicide Squad og Independence Day 2 hjá fyrirtæki sem heitir MPC (Moving Picture Company). Fljótlega fékk ég tilboð frá Framestore í Montreal og hef verið þar síðan. Hér hef ég unnið við myndirnar: Fantastic Beasts, King Arthur, Beauty & The Beast, Alien: Covenant. Downsizing, Geostorm, Paddington 2, Mary Poppins og er nú að vinna við endurgerð Dumbo sem Tim Burton leikstýrir.
Hver er þín aðkoma að Mary Poppins myndinni?
Þar sem myndin er nýkomin út og Framestore má ekki segja frá sinni vinnu strax get ég ekkert farið út í nákvæmlega hvað ég gerði við myndina. Ég get þó sagt að ég kom inn í verkefnið í Október 2017 og þá fór mesta vinnan í að finna útlitið sem stefnt er að en það er mikið sköpunarferli sem fer fram og til baka á milli Framestore og leikstjóra myndarinnar. Þegar það er komið er svo farið á fullt við að fullvinna og skila tilbúnum skotum en það tekur auðvitað mikinn tíma og kláraðist verkefnið ekki fyrr en í júlí 2018.
Það eru mismunandi margir sem koma við sögu við hvert skot sem inniheldur tæknibrellur eftir því hversu flóknar þær eru. Ég sem kompari er seinasti hlekkurinn í því ferli og mitt hlutverk að hnoða saman efnið sem var skotið á tökustað og allt það efni sem búið var til og þarf að vera í hverju skoti fyrir sig. Til dæmis að taka burt grænan bakgrunn og setja okkar umhverfi í staðinn. Þá þarf að passa að lýsing og litir forgrunns og bakgrunns passi saman svo eitthvað sé nefnt.
Nákvæmnin er gífurleg og strangt ferli við að endurskoða alla vinnu áður en að efnið er sent úr húsi því þegar ég er búinn með mína vinnu þá er það sem var á skjánum mínum það sama og verður á bíótjaldinu þegar myndin kemur út. Þess má geta að 2 aðrir íslenskir komparar unnu með mér við Mary Poppins í Montreal, þeir Elfar Smári Sverrisson og Guðjón Kristjánsson.
Hvernig er vinnuferlið í verkefnum af þessari stærðargráðu?
Í svona stórum myndum er vinnunni oft skipt á milli fyrirtækja. Oft leiðir þó eitt fyrirtæki vinnuna og er með frá byrjun til að vinna með leikstjóra og framleiðslu við að búa til lausnir og plan við tökur til að auðvelda eftirvinnslu eins og hægt er. Þannig er svokölluð eftirvinnsla oftast byrjuð áður en farið er að taka eitthvað upp og notuð til að sjá fyrir sér ákveðna hluti áður en farið er af stað.
Það er nánast ekkert sem heitir venjulegur vinnutími í þessum geira, það er reynt að halda í 9-18 en lang flest verkefni þurfa einhverntíman á yfirvinnu að halda og stundum mjög mikla.
Hvað er skemmtilegast við svona vinnu... vinnuferlið eða að sjá afraksturinn í bíó?
Það er auðvitað gífurlega gaman að sjá afraksturinn í bíó en einnig mjög skemmtilegt að vera hluti af sköpunarferlinu þegar verið er að pæla og plotta einhverja effekta eða heildarútlit. Í Mary Poppins var þó skemmtilegast þegar Framestore sendi mig til Duncan Studios í L.A. sem sá um 2d teiknuðu senurnar. Það var magnað að sjá þeirra ferli og kynnast fólki sem hafði verið að vinna við allar þessar klassísku teiknimyndir sem ég ólst upp við eins og Lion King, Aladdin og fleiri. Mörg þeirra voru fyrir löngu búin að leggja blýantinn á hilluna en ákváðu að koma til baka í Mary Poppins.