Ég trúi því af öllu hjarta að hér í okkar ríka og fallega landi sé okkur kleift að búa svo um hnútana að hér sé megi skapa gott fyrirmyndarþjóðfélag þar sem enginn þarf að líða skort
eða hafa áhyggjur af framtíð sinni og annarra.
Þetta segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, m.a. í áramótagrein í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins.
„Flokkur fólksins hefur frá upphafi barist gegn vítisvél verðtryggingarinnar. Sem dæmi má benda á að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hafa hækkað um 60 milljarða króna á síðustu 12 mánuðum. Þið eruð ekki að sjá ofsjónir, verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hafa hækkað um 60 milljarða króna á sl. 12 mánuðum. Þetta er sama upphæð og stendur til að taka að láni til enduruppbyggingar á vegakerfi landsins. Við þekkjum öll hverjir það eru sem standa vörð um gegndarlausa græðgisvæðingu elítunnar Við vitum einnig hverjir standa að baki þess óréttlætis og arðráns sem verðtryggingin er.
Kröfur verkalýðshreyfingarinnar fela m.a í sér óskir um kerfisbreytingu. Þar er ekki einungis verið að kalla eftir krónutöluhækkunum heldur kjarabótum til lengri tíma litið. Þess vegna er það nú í höndum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að greiða götuna í komandi kjarabaráttu með því að leggja vítisvél verðtryggingar niður strax,“ segir Inga ennfremur í grein sinni.