Hlutirnir stefna allir í rétta átt og það er hinn eini sanni mælikvarði: Íslandi gengur vel. Við höfum góðan meðbyr inn í nýtt ár.
Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í áramótagrein í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins.
„Erlend staða okkar er góð, ríkisfjármálin hafa tekið stakkaskiptum, verðlag hefur verið stöðugt og skulda- og eignastaða heimila og fyrirtækja er allt önnur en á síðasta hagvaxtarskeiði. Við höfum lært af fortíðinni. Höfum styrkt áætlanagerð og búið í haginn fyrir framtíðina, greitt niður skuldir, inn á lífeyrisskuldbindingar og undirbúið stofnun þjóðarsjóðs. Við höfum líka gætt þess að huga að þeim sem þurfa helst á stuðningi að halda og sett met í framlögum til heilbrigðismála og almannatrygginga,“ segir Bjarni einnig í grein sinni.
„Atvinnuástand er gott, fjölbreytni í störfum vex með hverju árinu og við styðjum í auknum mæli við rannsóknir, þróun og nýsköpun sem mun leiða til enn fjölbreyttari og betri starfa. Hlutirnir stefna allir í rétta átt og það er hinn eini sanni mælikvarði: Íslandi gengur vel. Við höfum góðan meðbyr inn í nýtt ár.“