Viðsjárverð þróun

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýnir sjálfsmyndarstjórnmál í áramótagrein sinni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýnir sjálfsmyndarstjórnmál í áramótagrein sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Margar þeirra grundvallarreglna, sem þróast hafa í meira en 2000 ár og lagt grunninn að vestrænum lýðræðisríkjum, hafa á undanförnum árum átt undir högg að sækja. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í grein sinni í Tímamótum, áramótablaði Morgunblaðsins og telur þessa þróun viðsjárverða. 

Sigmundur Davíð segir að svokölluð sjálfsmyndarstjórnmál séu í senn afleiðing og orsök þessarar þróunar. Þau snúist um að setja ákveðna stimpla á málefni og fólk og meta í framhaldinu allt út frá því hvaða stimpli hafi verið komið á viðkomandi. 

„Aðra birtingarmynd þróunarinnar mætti kalla ímyndarstjórnmál. Stjórnmál sem snúast um ímynd stjórnmálamanna og flokka en ekki um þau málefni sem menn standa fyrir eða ná fram, þ.e. hin eiginlegu „stjórnmál“. Það sem menn boða eða gera verður aukaatriði. Allt snýst um þá ímyndina eða ,,stimpilinn“,“ skrifar Sigmundur Davíð.


Hann segir að við þessar aðstæður hætti stjórnmálin að virka. Lýðræðið hætti að virka.

„Hugmyndin með lýðræði er sú að allir hafi jafnan rétt á að meta þær lausnir sem boðið er upp á fyrir samfélagið og taki afstöðu til þeirra,“ skrifar hann.
„Ef við trúum því að almenningur sé best til þess fallinn að ráða þróun eigin samfélags leiðir það til þess að þeir sem boða og framkvæma lausnir sem virka fái fyrir vikið aukinn stuðning en aðrir ekki. En þegar stjórnmálin snúast um ímynd fremur en málefni breytast þau í leikhús þar sem allt snýst um persónusköpun. Meginmarkmiðið verður þá jafnvel að koma höggi á persónu andstæðingsins fremur en að rökræða málefnin. Á meðan er kerfinu eftirlátið að stjórna.“

Hann telur að það verði jafnvel þægilegra fyrir stjórnmálamennina að láta aðra um ákvarðanirnar og vísa í að stefnan, frumvörpin og reglugerðirnar séu ekki pólitískar ákvarðanir heldur afleiðing af „faglegu ferli“. „Í stað þess að framfylgja kosningaloforðum og stjórna einbeita menn sér þá að því að tala inn í ríkjandi tíðaranda, nota réttu frasana og láta mynda sig við borðaklippingar og á fundum með útlendingum,“ segir Sigmundur Davíð einnig í grein sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert