Fjöldi samninga losnaði um áramótin

Kjarasamningar fjölda stéttarfélaga losnuðu um áramótin samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissáttasemjara eða samtals um 82 samningar. Fimm aðrir samningar losnuðu fyrr á síðasta ári þar sem samið hefur verið á ný í þremur tilfellum en öðrum ekki.

Þannig var samið í kjaradeilu Félags tónlistarkennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga, deilu Einingar Iðju og Becromal og Íslenska flugmannafélagsins og WOW air. Ósamið er hins vegar í kjaradeilu Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum við Orkubú Vestfjarða og deilu Flugvirkjafélags Íslands við Bluebird sem er á borði ríkissáttasemjara.

Meðal þeirra kjarasamninga sem losnuðu um áramótin er kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands við Samtök atvinnulífsins vegna Icelandair og Flugfélags Íslands og samningar Félags íslenskra flugumferðarstjóra sem og til dæmis ýmsir samningar Rafiðnaðarsambands Íslands, Samiðnar, Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Starfsgreinasambandsins.

Ennfremur kjarasamningur Landssambands íslenskra verslunarmanna og VR við SA og Félag atvinnurekenda, samningur Mjólkurfræðingafélags Íslands við SA og samningar Blaðamannafélags Íslands. Af þeim samningum sem losnuðu um áramótin er aðeins kjaradeila VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness komin á borð ríkissáttasemjara.

Hvað nýja árið varðar losnar kjarasamningur Læknafélags Íslands og ríkisins í lok febrúar og yfir 170 aðrir samningar í lok mars. Þar á meðal eru samningar Flugvirkjafélags Íslands, samninvgur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við Samtök íslenskra sveitarfélaga, samningar SFR við Reykjavíkurborg og ríkið og fleiri aðila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert