„Hugmyndin er að gefa innsýn í það hvernig Flateyri var árið 2018,“ segir Eyþór Jóvinsson, verslunarmaður á Flateyri.
Því var fagnað síðasta laugardag, 29. desember, að hundrað ár voru liðin síðan verslunin Bræðurnir Eyjólfsson á Flateyri fékk verslunarleyfi. Af því tilefni var innsiglað tímahylki sem verður læst næstu hundrað árin.
Í tímahylkinu er að finna muni, bréf, teikningar og ljósmyndir sem Flateyringar og aðrir hafa safnað að undanförnu. Ætlunin er að gefa kynslóðum framtíðarinnar smá glugga inn í samfélagið í dag, rétt eins og bókabúðin veitir gestum sínum innsýn í samfélagið og lifnaðarhætti á fyrri hluta síðustu aldar.
Eyþór segir að Bræðurnir Eyjólfsson sé elsta upprunalega verslun landsins. Hún er rekin í upphaflegu húsnæði með upprunalegum innréttingum og enn af sömu fjölskyldu. Í dag ræður Eyþór þar ríkjum, en hann er langafabarn Jóns Eyjólfssonar, sem var einn þriggja stofnenda verslunarinnar og verslunarstjóri lengst af.
Sjá viðtal við Eyþór í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.