„Það hefur alltaf verið svo erfitt að komast inn í Kína en netverslun yfir landamæri er að opnast meira og meira. Þessi möguleiki gefur litlum og meðalstórum fyrirtækjum möguleika að selja vörur í Kína án þess að vera með aðstöðu þar. Í dag geturðu verið með lagerinn þinn á Íslandi og farið inn á Kínamarkað með lítilli áhættu.“
Þetta segir Teitur Jónasson, stofnandi og einn eigenda Content People í Danmörku. Fyrirtækið sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu og hefur að undanförnu einbeitt sér að markaðinum í Kína.
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag lýsir Teitur því að mikil tækifæri séu fyrir lítil og meðalstór íslensk fyrirtæki til að koma sér á framfæri í Kína um þessar mundir. Þá fylgi stór tækifæri auknum straumi ferðamanna frá Kína en því er spáð að um 100 þúsund ferðamenn komi frá Kína til Íslands í ár. Vilji íslensk fyrirtæki ná til kínverskra neytenda og ferðamanna þurfi þau hins vegar að tileinka sér nýjar aðferðir, þarlenda samfélagsmiðla og fyrirkomulag símagreiðslna. Ekki þýði að ætla sér bara að þýða efni heimasíðu fyrirtækisins á ensku eða að notast við hefðbundna miðla.
Teitur hefur þegar unnið með nokkrum íslenskum fyrirtækjum að því að koma þeim á framfæri í austri. Hann telur að tækifærin séu næg fyrir fleiri fyrirtæki.
„Ísland og Norðurlöndin eru heit og Ísland sló til dæmis í gegn í tengslum við HM í fótbolta. Fyrir vikið er vakning gagnvart íslenskum vörum og Kínverjar eru mjög áhugasamir um ekta vörur sem Íslendingar nota sjálfir. Þeir eru til dæmis áhugasamir um ferska matvöru, heilsu- og snyrtivörur og vörur fyrir mæður og börn þeirra.“