„Mínar niðurstöður eru þær að kynferðislegt ofbeldi í æsku hefur mikil áhrif á barneignarferli,“ segir Inga Vala Jónsdóttir ljósmóðir, sem flytur erindi á líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu á föstudaginn. Erindið fjallar um reynslu íslenskra mæðra sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku af barneignarferli og móðurhlutverki.
Inga hefur sankað að sér upplýsingum um efnið um langt skeið en hún hefur verið ljósmóðir í 16 ár. Hún skilaði svo loks inn meistararannsókn síðasta haust. Inga segir það helst hafa komið sér á óvart að áhrifin af kynferðislegu ofbeldi í æsku sýndu sig seinna meir þegar þolendur yrðu mæður.
„Það var ekki upphaflega hluti af rannsóknarspurningunni en ég gat ekki látið það vera. Reynslan virðist hafa mikil áhrif á tengslamyndun móður og barns. Það að hugsa um börn og vera í nánum tengslum við þau getur í rauninni kveikt á minningu í tengslum við ofbeldið.
Bara það að barnið nái svipuðum aldri og móðirin var á sjálf þegar hún varð fyrir ofbeldi þá ná börn stundum að verða „trigger“ á minningar varðandi ofbeldi og það verður stundum til þess að það verða erfiðleikar í tengslamyndun við börnin. Samt sem áður gat það að eignast barn haft jákvæð áhrif á mæðurnar á þann hátt að börnin urðu hvati fyrir þær til þess að vinna úr sinni ofbeldisreynslu.“
Inga segir að mæðurnar sem hún talaði við hafi fundið til mjög sterkrar ábyrgðartilfinningar gagnvart börnum sínum. „Það er vegna þess að þær vita í raun hvað heimurinn getur verið vondur. Ein gat til dæmis ekki hugsað sér að leyfa barninu sínu að gista utan heimilisins þar sem hún gat ekki boðið því upp á umhverfi þar sem hún vissi ekki allt um alla eða eitthvað slíkt.“
Áhrifa af kynferðislegu ofbeldi gætti þó ekki einungis í sambandi við móðurhlutverkið sjálft heldur jafnframt í fæðingunni. „Það eru auðvitað kynfærin sem koma við sögu bæði við ofbeldið og í fæðingunni. Bara það að finna ríka skynjun eins og mikinn þrýsting eða sársauka á þessum stöðum getur vakið minningar um ofbeldi.
Þetta virðist hafa mjög sterk tengsl við fæðingarhræðslu, ekki síst þegar konur hafa gengið í gegnum fæðingu áður. Minningarnar virðast því búa í líkamanum, líkamsskynjuninni, ekki bara meðvitað einhvers staðar í bakhólfi í heilanum. Það er svolítið merkilegt en ofboðslega rökrétt þegar maður fer að skoða það nánar.“
Það var einmitt fæðing þar sem kona upplifði sterk líkamleg viðbrögð sem fékk Ingu til þess að vilja skoða efnið nánar. „Þegar ég var ljósmóðurnemi lenti ég í því að kona sem ég og reynd ljósmóðir vorum með í fæðingu lamdi og sparkaði þegar ég var að reyna að taka á móti barninu. Hún reyndi að lemja mig, það var bara þannig. Sem betur fer gekk fæðingin fljótt yfir og hún var náttúrulega algjörlega miður sín á eftir og maðurinn hennar sagði mér að þetta hefði líka gerst síðast.
Ég fór yfir fæðinguna á eftir, eins og maður gerir þegar maður er ljósmóðurnemi, og var auðvitað bara dálítið sjokkeruð, hafði ekki ímyndað mér að ég ætti á hættu að verða fyrir ofbeldi í þessu starfi. En það var náttúrulega bara augljóst hvað konunni leið hræðilega illa, það var eins og hún væri í rauninni ekki tengd aðstæðunum sem hún var í. Leiðbeinandinn minn gaf mér sterklega til kynna að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, hún orðaði það kannski á þá leið að það hefði eitthvað komið fyrir hana. Þannig að þetta var eitthvað sem ljósmæður þekktu en enginn hafði verið að tala eða skrifa um.“
Inga bendir á það að áhrif ofbeldis séu ekki einungis andleg heldur jafnframt líkamleg. „Ég hef kynnt þetta nokkrum sinnum og það sem kemur fólki oft á óvart er hvað ofbeldið, ofbeldisreynslan hefur mikil áhrif á líkamlega heilsu okkar. Andlegu áhrifin eru kannski betur þekkt en líkamleg heilsa líður svo sannarlega fyrir ofbeldisreynslu og meðganga og fæðing eru ekkert undanskilin í því.
Það eru fleiri meðgöngukvillar, algengara að það kom eitthvað upp á í fæðingunni, blæðingar á meðgöngu og fleira. Í morgun var ég að skima yfir rannsókn sem sýnir fram á auknar líkur á fylgjulosi sem er mjög hættulegur fylgikvilli og getur orðið barninu lífshættulegur og móðurinni jafnvel líka. Þannig að þetta er heilbrigðisvandamál, það er alveg klárt, ofbeldi er heilbrigðisvandamál.“
Aðspurð segir Inga viðfangsefnið vera erfitt en að það hafi ekki verið neitt mál að fá þátttakendur í rannsóknina. „Mín leið var sú að fara í gegnum þessi sjálfshjálparsamtök sem hafa gert kraftaverk fyrir konur og þessa umræðu. Þá fór ég í gegnum Stígamót og Drekaslóð og Aflið hérna á Akureyri. Ég hefði alveg örugglega getað fengið helmingi fleiri þátttakendur.
Umræðan hefur auðvitað opnast mikið um kynferðislegt ofbeldi og það vantaði ekki konur til þess að tjá sig um þetta efni. En þetta er auðvitað allt gert í trúnaði og með því að fara þessa leið hitti ég konur sem voru búnar að vinna eitthvað með sína reynslu. Maður vill ekki eiga það á hættu að geta valdið mikilli vanlíðan hjá fólki þegar maður fer af stað með rannsókn um svona viðkvæm málefni.“
Inga segir að hópurinn hafi verið mjög breiður og að upplifunin hafi verið ólík eftir aldri kvennanna. „Þátttakendurnir voru allt frá ungum konur sem voru kannski nýbúnar að eiga sitt fyrsta barn og allt upp í konur sem áttu börn fyrir 30 til 40 árum. Reynslan af því hvernig komið var fram við þær innan heilbrigðisgeirans var ólík.
Það var saga frá eldri konu þar sem heilum bekk úr læknadeildinni var boðið að fylgjast með fæðingunni án þess að hún væri nokkurn tímann spurð. Það er náttúrulega eitthvað sem væri aldrei gert í dag. Sumar lentu í hrokafullri framkomu og slíku en eins og titill rannsóknarinnar gefur til kynna, „Það vantar meiri skilning á manni“, þá vantar enn upp á að heilbrigðisstarfsfólk hafi þá grunnþekkingu sem enn vantar upp á og átti sig á því að ofbeldi hafi áhrif á heilsufar fólks.
Það hefur áhrif á hvernig fólk kemur fram, hvernig það upplifir, það er líka þannig að þegar maður hefur orðið fyrir ofbeldi að maður er viðkvæmari fyrir illri framkomu. Fólk er viðkvæmara þegar það hefur þessa reynslu í farteskinu.“