Alma D. Möller landlæknir lagði fram minnisblað til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítala 17. desember sl. Meðal þeirra úrræða sem landlæknir hefur bent á er opnun hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi og Sjúkrahótels við Landspítala sem allra fyrst.
Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi velferðarráðuneytisins, segir að ráðuneytið hafi orðið fyrir vonbrigðum yfir því að Seltjarnarnesbær hyggist ekki uppfylla samningsbundnar skyldur sínar um rekstur nýs hjúkrunarheimilis sem gerður var milli ráðuneytisins og Seltjarnarnesskaupstaðar 18. júní 2014.
Samkvæmt þeim samningi beri sveitarfélaginu að axla ábyrgð á rekstri heimilisins, hvort heldur með því að annast reksturinn sjálft eða fela þriðja aðila reksturinn fyrir sína hönd. Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin hafi ráðuneytið unnið að því að finna leiðir til að koma hjúkrunarheimilinu í rekstur eins fljótt og auðið eftir að sveitarfélagið hefur afhent það fullbúið og rekstrarhæft á nýju ári. Miðað er við að hægt verði að opna heimilið í byrjun febrúar.