Áhafnir björgunarþyrlna og eftirlits- og björgunarflugvélar Landhelgisgæslunnar sinntu 278 útköllum á síðasta ári. Er það metár. Alls voru 180 sjúkir og slasaðir fluttir, þar af helmingur erlendir ríkisborgarar sem er hærra hlutfall en verið hefur undanfarin ár.
Á næstu vikum og mánuðum fær Landhelgisgæslan nýrri leiguþyrlur til notkunar næstu árin og áformað er að bjóða út kaup á nýjum þyrlum sem Gæslan mun eiga, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.
Stöðug aukning hefur verið í útköllum loftfara Landhelgisgæslunnar á undanförnum árum. Þau 278 útköll sem áhafnir þeirra sinntu á síðasta ári eru 8% fleiri en árið á undan og áður hafa ekki komið jafn mörg útköll á einu ári. Það sýnir þróunina vel að á árinu 2011 voru útköllin 160 og hafa því aukist um 74% á sjö árum. Fluttir voru 180 sjúkir eða slasaðir í þessum útköllum. Þar af voru 90 erlendir ríkisborgarar, jafnmargir og Íslendingar.