Ungmenni á aldrinum 13-19 ára sem vinna mikið með skóla eru líklegri til að finna stundum eða oft fyrir stoðkerfisvandamálum en þau sem ekki vinna með skóla.
Ný rannsókn Margrétar Einarsdóttur, nýdoktors í félagsfræði við Háskóla Íslands, leiðir þessi tengsl í ljós, en ríflega 50% ungmenna unnu með skóla veturinn 2017-2018, þar af þrír fjórðu í fastri vinnu en fjórðungur af og til.
Þegar mælt er fyrir kyni kemur í ljós að tengsl haldast milli stoðkerfisverkja og vinnu með skóla hjá stúlkum fyrir öllum tegundum stoðverkja, en aðeins bakverkjum í tilviki stráka. „Rannsóknin bendir sem sagt til þess að það að vinna með skóla komi harðar niður á stoðkerfi stúlkna heldur en stráka. Þetta er í samræmi við rannsóknir hérlendis og erlendis á fullorðnu fólki sem sýna að vinna almennt bitni harðar á stoðkerfi kvenna en karla. Karlmönnum er aftur á móti hættara við vinnuslysum og flestar rannsóknir sýna að strákum sé einnig hættara við vinnuslysum en stúlkum. Þetta skýrist fyrst og fremst af ólíkum störfum kynjanna,“ segir Margrét í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.