Stór hjörð hreindýra sást við veginn á Háreksstaðaleið á Norðausturlandi í gær og biður Vegagerðin vegfarendur um að hafa varann á sér á þessum slóðum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu Vegagerðarinnar um færð og aðstæður á vegum.
Vegir eru auðir á Suðvesturlandi en víða er nokkuð stífur vindur en hvassviðri eða stormur á köflum á Vesturlandi. Sums staðar er þokuloft en vegir eru nánast auðir.
Á Vestfjörðum eru hálkublettir á fáeinum köflum en flughált er á Dynjandisheiði. Þá eru aðalleiðir á Norðurlandi auðar en hugsanlega er einhver hálka á útvegum og þá jafnvel flughált.
Á Norðausturlandi eru vegir að mestu greiðfærir með ströndinni en flughált á köflum yfir Öræfin, enda hlýtt. Lokað er að Dettifossi. Á Austurlandi er hált á köflum en þó aðeins hálkublettir með ströndinni.