Verið er að opna húsnæði Vinnumálastofnunar að nýju í samráði við lögreglu en því var lokað í morgun eftir að hótun barst stofnuninni í tölvupósti. Samkvæmt heimildum mbl.is var starfsfólk stofnunarinnar beðið um að halda sig frá gluggum af öryggisástæðum.
Unnur Sverrisdóttir, starfandi forstjóri Vinnumálastofnunar, staðfesti í samtali við mbl.is að stofnuninni hafi borist hótun með tölvupósti en vildi ekki tjá sig að öðru leyti. Sagði hún við blaðamann á meðan lokun húsnæðisins stóð yfir að hún teldi starfsfólk ekki vera í hættu.
Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði við mbl.is að lögregla hefði ekki verið kölluð að húsnæði Vinnumálastofnunar vegna málsins, en hefði verið upplýst um hótunina.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nú rétt fyrir hádegi segir að lögreglunni hafi verið kunngjört um málið og að hún hafi upplýsingar um þann sem standi að baki hótuninni. Er viðkomandi staddur erlendis og málið unnið í samvinnu við þarlend lögregluyfirvöld.
Fréttin hefur verið uppfærð.