VR bíður svara vegna uppsagna

Fyrrverandi starfsmenn Wow sem var sagt upp á meðan þeir …
Fyrrverandi starfsmenn Wow sem var sagt upp á meðan þeir voru í fæðingarorlofi telja að þeir hafi ekki fengið nægilegan rökstuðning við uppsögn sína eins og kveðið er á um í lögum. mbl.is/​Hari

Nokkur erindi hafa ratað inn á borð stéttarfélagsins VR vegna uppsagna starfsmanna Wow sem eru í fæðingarorlofi. Félagið telur uppsagnirnar ekki nægilega rökstuddar og vísar til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Fréttablaðið sagði fyrst frá málinu.

Engin sambærileg mál hafa ratað inn á borð Flugfreyjufélags Íslands, segir Orri Þrastarson, varaformaður félagsins, í samtali við mbl.is.

„Í lögunum segir að það sé óheimilt að segja fólki upp sem er í fæðingarorlofi, nema liggi fyrir gildar ástæður fyrir uppsögn. Þannig að meginreglan er að óheimilt er að segja fólki upp sem er í fæðingarorlofi,“ útskýrir Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, í samtali við mbl.is.

Hann segir hins vegar hægt að segja starfsmanni upp sem er í fæðingarorlofi ef færð eru rök fyrir því.

Stefán segir það mat stéttarfélagsins að Wow hafi ekki uppfyllt þessar fyrrnefndu skyldur sínar um að leggja fram rökstuðning þegar flugfélagið sagði upp 111 fastráðnum starfsmönnum í síðasta mánuði, en meðal þeirra voru félagsmenn VR sem eru í fæðingarorlofi sem hafa leitað til stéttarfélagsins.

VR hefur því krafið Wow um frekari rökstuðning fyrir þessum tilteknu uppsögnum. Stefán segist ekki geta upplýst um þann fjölda sem um ræðir sem eru félagsmenn VR, en tekur fram að þetta séu nokkrir einstaklingar.

Uppfært klukkan 13:30

Áður sagði að leitað var viðbragða Wow við vinnslu fréttarinnar, án árangurs.

Svar hefur borist frá Wow við fyrirspurn mbl.is vegna málsins:

WOW air telur gildar ástæður vera fyrir þeim uppsögnum sem félagið fór í í desember og er í góðum samskiptum við stéttarfélög vegna uppsagnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert