„Alvarlegur faglegur ágreiningur milli lækna og stjórnvalda“

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands.
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. mbl.is/​Hari

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að svo virðist sem upp sé kominn alvarlegur faglegur ágreiningur milli lækna og stjórnvalda á ýmsum sviðum. 

Þetta kemur fram í pistli hans í nýútkomnu Læknablaði. Ágreininginn segir hann meðal annars snúast um viðurkenningar á sérfræðileyfum og kröfur til framhaldsnáms, ábyrgðarsvið yfirlækna og stjórnskipulag á heilbrigðisstofnunum, innleiðingu Alþingis á tvöföldu heilbrigðiskerfi „með ákvörðun um að gefa afslátt á þekkingu, gæðum og öryggi þegar kemur að lyfjaávísunum“.

Þá gagnrýnir hann stjórnvöld harkalega og segir hann áhuga alþingismanna á tilslökun á lýðheilsumarkmiðum sérstakt áhyggjuefni, sérstaklega „hvað varðar áfengislöggjöfina, sölu á rafsígarettum, blekkingar um gagnsemi fíkniefna í lækningaskyni, gagnrýnislaus meðmæli skottulækninga undir því yfirskyni að um einhvers konar viðbótarmeðferð geti verið að ræða, ásamt undanlátssemi frá viðmiðunum sem til dæmis má finna í Genfarsáttmála lækna um að virða mannslíf staðfastlega til hins ýtrasta.“

Að mörgu þarf að huga í nýjum kjarasamningi

Reynir fjallar einnig um kjaraviðræður í pistli sínum og segir hann engin teikn vera á lofti um að samningar Læknafélags Reykjavíkur við Sjúkratryggingar Íslands séu í nánd en þeir losnuðu um áramót líkt og fjölmargir kjarasamningar.

Reynir segir að í komandi samningi þurfi að mörgu að hyggja til að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll sjálfstætt starfandi lækna.

„Búið er að hrekja fyrir dómi fyrr á árinu ólöglega ákvörðun heilbrigðisráðherra um að stöðva eðlilega nýliðun sérfræðilækna á samningstímanum sem er að renna sitt skeið,“ skrifar Reynir og á þá við mál Ölmu Gunnarsdóttur sérfræðilæknis sem lagði íslenska ríkið síðastliðið haust en hún höfðaði mál vegna ákvörðunar Sjúkra­trygg­inga Íslands um að synja henni um aðild að ramma­samn­ingi.

Reynir segir að þegar kemur að samningi við sérfræðilækna þurfi ekki einungis að tryggja einingarverð og lengd samningstíma, heldur einnig kröfulýsingar um rekstur og gæði og tryggja að þessi hópur geti uppfyllt símenntunarkröfur sem gerðar eru í starfsumhverfi sem tekur hröðum framförum og staðið að innleiðingu tækniframfara og nýjunga sem leiða til meiri hagkvæmni og betri meðferðar fyrir sjúklinga.

LÍ mun fljótlega leggja fram kröfugerð vegna komandi kjarasamnings. „Áhersla á bætta grunnviðmiðun eftir samþjöppun launabils milli starfsstétta ásamt mótvægisaðgerðum vegna vaxandi álags og langs vinnutíma starfshópsins verður meðal þess sem þarf að sinna,“ segir í pistli Reynis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert