Guðbergur settur af sem formaður

Guðbergur gegndi formennsku í fagráði um umferð.
Guðbergur gegndi formennsku í fagráði um umferð. mbl.is/​Hari

Guðbergi Reynissyni, sem skipaður var formaður fagráðs um umferð til ársins 2021 á vegum samgönguráðuneytisins, hefur verið sagt upp formennsku af Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra. Frá þessu greindi Guðbergur í morgun.

Guðbergur var skipaður formaður ráðsins af Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi samgönguráðherra, og telur Guðbergur líklegt að Sigurður Ingi sé að setja pólitískan bandamann í ráðið í sinn stað. „Maður var alltaf með það í hnakkanum að hann myndi kannski skipta út í nefndum og ráðum þannig ég er ekkert rosalega hissa,“ segir Guðbergur.

Guðbergur Reynisson.
Guðbergur Reynisson. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist þó sjá á eftir formennskunni enda hefur hann mikinn áhuga á samgöngumálum og umferðaröryggi. „Ég er með sendibílaþjónustu, sjö til átta bíla sem fara Reykjanesbrautina hvern einasta dag frá Reykjavík til Keflavíkur,ׅ“ segir Guðbergur en hann er jafnframt einn stofnenda þrýstihópsins „Stopp, hingað og ekki lengra!“ sem hefur knúið á um framkvæmdir á Reykjanesbraut af öryggisástæðum.

Að sögn Guðbergs eiga sæti í ráðinu 24 aðilar sem koma að umferðarmálum í landinu með einum eða öðrum hætti. „Þarna er verið að ræða hvar sé hægt að gera betur í öryggi og samgöngumálum,“ segir Guðbergur. „Við höfum verið að fá fræðslu fyrir alla tengda aðila við þetta borð og benda á það sem gera má betur ef eitthvað er ekki í lagi,“ segir hann.

„Það hefði verið gaman að fá að klára þetta. Það er fullt af hlutum sem maður var að komast inn í og sjá hvernig virkuðu sem er grunnur að því að gera eitthvað stærra,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert