Líffæragjafir hlutfallslega flestar á Íslandi

Hlutfallslega hafa verið fleiri líffæragjafir hér á landi en í …
Hlutfallslega hafa verið fleiri líffæragjafir hér á landi en í öðrum löndum sem taka þátt í norrænu líffæragjafasamstarfi. mbl.is/ÞÖK

Hlutfallslega flestar líffæragjafir úr látnum einstaklingum voru á Íslandi árið 2018 í samanburði við þær þjóðir sem taka þátt í norrænu líffæragjafasamstarfinu sem stofnunin Scandiatransplant sinnir. Í gögnum stofnunarinnar kemur fram að 28,12 líffæragjafir voru á hverja milljón íbúa (pmp) á Íslandi.

Alþjóðlegur mælikvarði á líffæragjafir þjóða er miðaður við hverja milljón og skammstafaður pmp.

Næst á eftir Íslandi var Eistlandi þar sem tíðnin var 25,02, síðan Finnland með 19,56, svo Noregur með 18,78, Danmörk með 17,82 og að lokum rak Svíþjóð lestina með 14,37.

Löggjöf um ætlað samþykki líffæragjafar tók gildi um áramótin hér á landi og er Danmörk eina landið innan samstarfsins þar sem slík löggjöf er ekki fyrir hendi.

Gjöfum hefur fjölgað mikið

Það má segja að tíðnin hafi verið nokkuð sveiflukennd hér á landi í gegnum árin en 2013 voru 12,4 líffæragjafir úr látnum, árið 2014 um 9,3 á móti 36,5 árið 2015. Árið á eftir féll tíðnin í 23,7 og árið 2017 voru líffæragjafirnar úr látnum 17,3.

Þessar miklu sveiflur má meðal annars rekja til smæðarinnar segir Runólfur Pálsson, nýrnalæknir og fulltrúi Landspítala í stjórn Scandiatransplant, í samtali við mbl.is. Hann bendir á að í fyrra voru í heild tíu líffæragjafar sem má segja gott hlutfall miðað við íbúatölu, en tiltölulega fá tilfelli geta haft mikil áhrif á tíðni.

Runólfur Pálsson
Runólfur Pálsson

Nýrnalæknirinn segir margt valda sveiflum í tíðni hér á landi og bendir meðal annars á það að á Íslandi sé það eingöngu þeir sem látast vegna heiladauða á gjörgæsludeildum sem gefa líffæri eftir andlát, sem takmarkar þann fjölda sem geta orðið gjafar.

„Fyrsta áratuginn eftir að við tókum upp líffæragjafir var synjunarhlutfallið um 40% þegar leitað var til aðstandenda. Síðustu fjögur ár hefur þetta gjör breyst,“ segir Runólfur og bætir við að synjunarhlutfallið nú er um 15%.

Hann segir hins vegar margar þjóðir standa sig betur en löndin í norrænu líffæragjafasamstarfinu og nefnir að tíðni líffæragjafar sé til að mynda nær 40 tilfelli á hverja milljón á Spáni.

Úrbætur á öllum vígstöðum

Slysatíðni getur haft veruleg áhrif að mati Runólfs sem segir breytileika í því eins og öðru. „Þetta eru svo fá tilfelli, en það skiptir máli hvort sveiflan í fjölda líffæragjafa er milli núll og sex, eða sex og tólf.“

Hann segir fleiri skýringar liggja að baki fjölgunarinnar. „Ég held að þetta sé ekki bara útaf því að það fóru fleiri að deyja. Við vitum að nokkrir af þessum gjöfum eru ferðamenn sem hafa orðið fyrir alvarlegu slysi. Það eru ekki bara fleiri ferðamenn, en líka fleiri sem eru skilgreindir sem mögulegir gjafar, ég held að það hafi verið úrbætur á öllum vígstöðum.“

Viðhorfsbreyting ekki trygging

Inntur álits á þörf á þeirri löggjöf um ætlað samþykki sem tók gildi um áramótin í ljósi þess að vel hefur gengið að breyta viðhorfi til líffæragjafar eftir andlát og slíkum gjöfum fjölgað, svarar Runólfur að nauðsyn hennar vera fyrir hendi.

„Við vitum bara að tíðni líffæragjafar er hærri í þeim löndum þar sem löggjöfin er eins og hún er núna hjá okkur. Við álítum sem svo að þó það hafi gengið vel síðustu ár, meðal annars fyrir tilstuðlan umfjöllun fjölmiðla, þá er ekkert öruggt að svo verði um alla tíð.“

Hann segir lykilatriði að halda uppi framboði líffæra þar sem eftirspurnin mun sífellt aukast. Hins vegar mun löggjöfin ekki draga úr þessum miklu tíðnisveiflum þar sem smæðin mun enn hafa mikil áhrif.

Aðstandendur hafa enn síðasta orðið

Þar sem ætlað samþykki er fyrir hendi er litið á að slík  löggjöf sé frekar samfélagssáttmála fremur en kvöð, að mati Runólfs. „Þeim er yfirleitt ekki fylgt í ýtrasta skilningi. Ef það væri þá væri í gildi svokölluð hörð löggjöf sem finnst óvíða, þar sem aðstandendur eru ekki spurðir.“

„Það er bundið í lögin að aðstandendur hafi síðasta orð. Þess vegna leggjum ennþá mikla áherslu á það að allir ræði sína afstöðu til líffæragjafar innan fjölskyldunnar. Á endanum er samt sem áður leitað til aðstandenda,“ útskýrir hann.

Scandiatransplant stofnunin var stofnuð árið 1969 að frumkvæði Norðurlandaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert