Nálastungumeðferð á brjóstholi getur verið lífshættuleg þar sem fólk getur hlotið loftbrjóst ef nálum er stungið of djúpt í brjóstkassann. Þetta kemur fram í fyrsta tölublaði Læknablaðsins.
Tilefni greinarinnar er tilfelli þungaðrar konu sem leitaði á bráðamóttöku Landspítalans eftir nálastungumeðferð í mars síðastliðnum. Hún komst í lífshættu eftir nálastunguna þar sem fíngerðum nálum hafði verið stungið „neðan við herðablöð beggja vegna, aftan við axlir, en einnig í framanverðan brjóstkassa og neðri útlimi.“
Eftir að hún leitaði á bráðamóttöku kom í ljós að hún væri með loftbrjóst, ástand sem verður „þegar loft berst inn í fleiðruholið sem umlykur lungað og veldur því að lungað fellur saman.“ Bæði lungu hennar höfðu þá fallið saman. „Samfall beggja lungna samtímis getur valdið lífshættulegum súrefnisskorti, jafnvel hjá hraustum einstaklingum“, segir í greininni.
Tilfellið er sjaldgæft og eru dæmi um að af svipuðum tilfellum hafi orðið dauðsföll. Konan sem um ræðir hafði farið í nálastungur vegna ógleði en einungis hefur einu öðru tilfelli verið lýst þar sem þunguð kona fékk loftbrjóst beggja vegna eftir nálastungur, þeirri meðferð var beitt vegna astma.
Í greininni kemur fram að nálastungumeðferðir njóti sífellt meiri vinsælda á Vesturlöndum en ekkert eftirlit er með nálastungum sem inngripi hér á landi. „Þó er ljóst að nálastungumeðferð er víða beitt hérlendis við meðgönguógleði og heilbrigðisstofnanir bjóða til að mynda upp á slíka meðferð.“
„Nálastungur sem meðferð við ógleði er umdeild, enda hafa niðurstöður verið misvísandi um ágæti hennar borið saman við hefðbundna lyfjameðferð,“ segir í greininni. Þar er jafnframt bent á að tilfelli konunnar sé „ágætis áminning um þá fylgikvilla sem hlotist geta af nálastungum og mikilvægi þess að upplýsa sjúklinga um þá fyrirfram.“