Tryggingastofnun ríkisins hefur hlunnfarið stóran hóp öryrkja um milljarða króna á undanförum árum að sögn Öryrkjabandalags Íslands. Þannig hafi bætur til yfir þúsund einstaklinga verið skertar á grundvelli búsetu, sem standist ekki skoðun.
Fram kemur á vef ÖBÍ að staðfest sé í bréfi velferðarráðuneytisins til velferðarnefndar Alþingis fyrir jól að TR hafi samtals haft yfir hálfan milljarð af um eitt þúsund öryrkjum árlega um árabil og beri að endurgreiða þær skerðingar.
ÖBÍ telur þetta hafa viðgengist í að minnsta kosti tíu ár en líklega mun lengur. Fyrir vikið megi segja að TR hafi hlunnfarið öryrkja um að minnsta kosti 5-6 milljarða króna. Til standi hins vegar að leiðrétta skerðingarnar aðeins fjögur ár aftur í tímann.
Haft er eftir Daníel Isebarn, lögfræðingi ÖBÍ, að ótrúlegt sé ef ríkið ætli að bera fyrir sig fyrningu.
„Ríkið er að gæla við þá hugmynd að greiða bara hluta til baka af því sem haft var ólöglega af fólki, fólki sem er með allra minnstu tekjurnar. Ég trúi því ekki að þetta endi þannig, ráðamenn hljóta að sjá að svoleiðis gerir maður ekki.“