Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir kröfu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að borgarstjóri víki úr þriggja manna hópi sem skipaður var 20. desember til að rýna niðurstöður skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið svonefnda, vera fráleita.
Kristín og Hildur ræddu braggamálið í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar sagði Hildur meðal annars að það væri mikilvægt að Dagur B. Eggertsson viki úr nefndinni til að auka trúverðugleika á þeirri vinnu sem fram undan er.
„Það skiptir máli að vinna vel úr þessu máli, vegna þess hve reiðin er mikil og vegna þess hversu fólk er mikið að fylgjast með,“ sagði Hildur. Hún segir reiðina ekki síst beinast að því að borgarstjóri eigi sæti í hópnum sem á að rýna í niðurstöður skýrslunnar.
„Það varð mikil reiði í kringum það að Dagur borgarstjóri sæti í þessum hópi, sérstaklega í samhengi þess að skýrslan lýsir yfir að hann beri ákveðna ábyrgð, að hann hafi gert ákveðin mistök, mér dettur ekki í hug að halda því fram að það hafi verið viljandi, þetta var auðvitað óviljaverk, en hann gerði ákveðin mistök.“ Hildur vill að hlutlaus aðili taki sæti borgarstjóra í nefndinni. „Til dæmis einhver frá innri endurskoðun eða stjórnsýslufræðingur.“
Kristín Soffía var spurð hvort hún væri ósammála því að borgarstjóri víki úr hópnum. „Ég skal ganga lengra og segja að mér finnist sú krafa fráleit. Ég held akkúrat að hann eigi að sitja.“
Kristín Soffía er ekki sammála Hildi um að niðurstaða skýrslunnar sé að Dagur beri ábyrgð. „Ég held eiginlega þvert á móti. Það kemur skýrt fram að það er engin ástæða til að hengja þetta utan um hálsinn á honum,“ sagði hún. Þá telur hún að málinu sé lokið en hún hlakkar til að sjá hver niðurstaða hópsins verður.
Hildur á sæti í hópnum ásamt Degi og formanni borgarráðs og lýsti hún því yfir rétt fyrir jól að hún muni gefa sæti sitt laust ef Dagur víki ekki úr nefndinni. Hún segir þá ákvörðun enn standa.