„Þetta er eiginlega stöðugur straumur, þetta tikkar inn eiginlega með hverri mínútunni,“ segir ritari umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Inga Skarphéðinsdóttir, í samtali við mbl.is. „Þetta er allt skráð í skjalakerfi og sett á vefinn, en það berast margar umsagnir um mörg önnur mál þannig að þetta er svo sem ekkert óvenjulegt,“ bætir hún við.
Mikill fjöldi umsagna frá einstaklingum um samgönguáætlun hefur borist og heldur áfram að berast Alþingi vegna hugmynda um að innheimta veggjöld eftir að sérstakur vefur var settur upp til þess að hvetja almenning til þess að tjá afstöðu sína.
Á vef alþingis í gær voru skráðar 239 umsagnir frá almennum borgurum, en nú eru slíkar umsagnir orðnar 295 talsins. Afstaða þeirra sem hafa sent inn umsagnir er þó í sömu átt og í gær.
270 segjast andmæla hugmyndum um veggjöld, 92%, 20 segjast styðja slík áform, 7%, og 5 kalla eftir frekari upplýsingum eða benda á aðrar leiðir til gjaldtöku.
Inga segir starfsmenn Alþingis ýmsu vana og að innstreymi umsagna vegna málsins skapi vissulega mikla vinnu, en að þetta sé ekki óvenjulegt miðað við að mikill fjöldi umsagna hafi einnig borist um önnur mál sem liggja fyrir þinginu.
„Það bárust til dæmis mjög margar umsagnir þegar lá fyrir frumvarp um rafrettur. Það koma upp svona mál reglulega sem fá mikið af umsögnum,“ útskýrir hún.
Í pistli sínum í Morgunblaðinu í gær skoraði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á almenning að koma afstöðu sinni á framfæri við nefndina með því að nota fyrrnefndan vef. Þá sagði hann að um 800 hefðu þegar notað vefinn.