Viðræður um samruna ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures og fimm félaga í eigu Icelandic Tourism Fund eru á lokastigi. Með samrunanum gæti orðið til eitt stærsta afþreyingarfyrirtækið í íslenskri ferðaþjónustu.
Að því er heimildir Morgunblaðsins herma eru félögin Into the Glacier, sem rekur ísgöngin í Langjökli, og The Lava Tunnel, sem skipuleggur ferðir í Raufarhólshelli í Leitahrauni í Ölfusi, meðal þeirra sem sameina á Arctic Adventures.
Forsvarsmenn Landsbréfa, sem rekur Icelandic Tourism Fund, og Arctic Adventures, vörðust frétta af samrunanum í gær.