Dæmd fyrir að keyra á fimm ára dreng

Slysið átti sér stað á Hörgárbraut, skammt frá Glerá.
Slysið átti sér stað á Hörgárbraut, skammt frá Glerá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Kona í Héraðsdómi Norðurlands eystra var 20. desember sl. dæmd í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa keyrt á dreng sem var á leið yfir gangbraut við Hörgárbraut skammt frá Glerá með þeim afleiðingum að hann hlaut opið lærleggsbrot á vinstri fæti og brákaðist á mjaðmagrind auk þess sem hann hlaut skrámur á höfði og útlimum. Slysið átti sér stað 24. september sl. og var konan í kjölfarið ákærð fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot.

Sýndi vítavert aðgæsluleysi við gangbrautina

Konan var talin hafa ekið of hratt og án nægilegrar varúðar að gangbrautinni. Var henni ekki gefið að sök að hafa ekið yfir löglegum hámarkshraða en að hafa ekið of hratt miðað við aðstæður. Dómurinn taldi að hún hefði sýnt vítavert aðgæsluleysi við gangbrautina, sérstakar skyldur hvíli á ökumönnum að gæta aðgæslu þar. 

Játaði konan skýlaust sakargiftir fyrir lögreglu og fyrir dómi einnig. Með vísan til hreins sakaferils hennar þótti mega fresta fullnustu refsingarinnar haldi hún almennt skilorð í tvö ár og falli niður að þeim tíma liðnum. Þá var hún svipt ökurétti í þrjá mánuði og henni gert að greiða sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda síns, 63.240 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert