„Ég byrjaði á þessum sið þegar ég hóf störf á Morgunblaðinu árið 1984 og hef sinnt þessu óslitið síðan,“ svarar Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, þegar spurt er hvenær hann hafi byrjað að mynda flugelda við áramót.
Mest hefur hann verið í miðbæ Reykjavíkur en einnig í Hafnarfirði, Breiðholti, Grafarvogi, Vesturbæ Reykjavíkur og víðar. „Ég er alltaf að leita að nýjum stöðum, nýjum svölum,“ segir Árni en færa má fyrir því rök að hann sé að jafnaði „svalasti“ maðurinn í bænum um áramót.
„Ég hef staðið á ófáum svölunum á gamlárskvöld og er alltaf jafn vel tekið. Ég hringi bara bjöllunni hjá húsráðendum, kynni mig og er boðið inn. Á sumum stöðum eru partí í gangi og mér boðið í glas sem ég verð auðvitað alltaf að afþakka – enda í vinnunni og á bíl.“
Annars gæti svalasamkvæmum farið fækkandi enda drónar komnir til sögunnar og ekki ólíklegt að Árni beiti þeirri tækni um næstu áramót.
Af heppilegum stöðum til að mynda á nefnir Árni sem dæmi nýju háhýsin í Skuggahverfinu og turninn á Landakotsspítala, þar sem hann hefur verið í nokkur skipti. Raunar þarf hann nokkra vinkla í hverri lotu, bæði til birtingar strax á Mbl.is og síðan um næstu áramót, framan á gamlársblaði Morgunblaðsins. „Og myndirnar hafa ratað víðar,“ segir Árni og dregur úr pússi sínu jólakort sem Landhelgisgæslan lét á sínum tíma gera. Eitt árið voru myndir Árna síðan sendar til breska ríkisútvarpsins, BBC, í Lundúnum sem varð til þess að lið var sent hingað til að fanga stemninguna við áramót. „Ég man ekki betur en að BBC hafi sent beint út frá Reykjavík, svo heillaðir voru menn af dýrðinni. Tökuliðið fór í þyrluflug og hvaðeina,“ rifjar hann upp.
Eins og svo margt annað í þessu lífi krefst þetta verkefni fórna og Árni hefur ekki séð Áramótaskaupið í heild sinni á gamlárskvöld síðustu 35 árin. „Ég næ stundum byrjuninni áður en ég legg af stað í myndatökuna. Mikilvægt er að vera snemma á ferðinni, þegar umferð er lítil, og ná að koma sér fyrir á góðum stað, þannig að hægt sé að byrja að mynda svona tuttugu mínútum fyrir miðnætti. Bestu myndirnar nást oftar en ekki þá enda er mengun gjarnan orðin mikil á slaginu tólf og dökkt ský yfir borginni.“
Eftirminnilegustu áramótin voru, að sögn Árna, rétt fyrir aldamótin þegar tívolíbombur voru leyfðar. „Það var svakaleg sýning; tívolíbomburnar voru eins og vopn og borgin bara eins og Dresden í stríðinu.“
Nánar er rætt við Árna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og fleiri myndir birtar.