Fjöldi íslenskra barna hefur lent í ofbeldi

Geir Gunnlaugsson, prófessor og fyrrverandi landlæknir.
Geir Gunnlaugsson, prófessor og fyrrverandi landlæknir. Ljósmynd/Háskóli Íslands

„Í stuttu máli er niðurstaða okkar sú að reynsla íslenskra barna af ofbeldi hér á Íslandi er að minnsta kosti á pari við og í sumum tilvikum meiri en á Norðurlöndunum,“ segir Geir Gunnlaugsson prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi landlæknir í samtali við mbl.is.

Geir hefur, ásamt Jónínu Einarsdóttur mannfræðingi, rannsakað ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Hann flutti erindi um samantekt á rannsóknum á ofbeldi gegn börnum á ráðstefnu í Háskóla Íslands í gær. Þar vísaði hann meðal annars í rannsókn sem sýndi fram á að stór hluti Íslendinga hefði upplifað ofbeldi í æsku.

48% þátttakenda í rannsókninni höfðu upplifað einhvers konar líkamlegt ofbeldi í æsku en þátttakendur sem voru 30 ára eða eldri voru um það bil tvisvar sinnum líklegri til þess að hafa upplifað líkamlegt ofbeldi í æsku en þeir sem yngri voru. 69% þátttakenda sögðust hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi í æsku en þeir sem voru 30 ára eða yngri voru um það bil þrisvar sinnum líklegri til þess að hafa upplifað andlegt ofbeldi í æsku. 

Kvíðnari, reiðari og þunglyndari

„Stutta sagan er sú að fjöldi íslenskra barna hefur reynslu af ofbeldi í æsku hvort sem það er líkamlegt, andlegt, átök á milli foreldra eða kynferðislegt ofbeldi. Það gerir mig hugsi vegna þess að við höfum almennt mjög góðar tölur yfir líkamlega heilsu barna á Íslandi, börn lifa lengi.“

Geir segir að niðurstöðurnar komi honum á óvart. „Ég er búinn að skoða þetta lengi og það kemur mér á óvart hvað þetta er algengt og hversu mikil áhrif ofbeldi hefur á heilsu og líðan ungmenna. Þau sem hafa orðið fyrir ofbeldi eru marktækt miklu reiðari, þunglyndari, kvíðnari og með minna sjálfsálit en þau sem hafa ekki slíka reynslu.“

Meira um andlegt ofbeldi en áður

Ofbeldið virðist hvorki vera að aukast né minnka en birtingarmyndir þess eru aðrar en áður var. „Ég myndi halda að tegundir ofbeldis væru að breytast. Við sjáum það á okkar gögnum að minna er um líkamlegar refsingar eins og flengingar, að snúa upp á eyru, löðrunga, kinnhesta og svoleiðis sem var mikið um áður,“ segir Geir en í rannsókn sem hann vísaði í í erindi sínu sögðust 29% hafa verið flengd í æsku, tæp 15% höfðu verið hrist og tæp 15% slegin utan undir í æsku.

„Þeir sem eru yngstir í þeim hópi sem við ræddum við eða svöruðu okkar spurningum sögðust frekar hafa reynslu af andlegu ofbeldi heldur en líkamlegum refsingum. Höfnun, mismunun og þess háttar fellur undir andlegt ofbeldi þannig að það er hugsanlegt að birtingarmyndir ofbeldis séu að breytast.“

Andlegt ofbeldi stórt lýðheilsumál

Andlega ofbeldið er jafnvel erfiðara viðfangs en það líkamlega. „Það er erfiðara að kljást við andlegt ofbeldi þar sem það sést ekki, þú færð til dæmis ekki glóðarauga af því. Þetta er stórmál og ég tel að þetta sé eitt af okkar stóru lýðheilsumálum.

Ég veit að kynferðislegt ofbeldi hefur fengið gríðarlega mikla athygli en ég er að vonast til þess að við lítum í vaxandi mæli heildstætt á vandann. Hann er ekki bara kynferðislegur heldur er hann fjölþættur. Kynferðislegu ofbeldi fylgir oft líkamlegt og andlegt ofbeldi. Við þurfum að huga ofsalega vel að litlu börnunum okkar.“

Í erindi sínu ræddi Geir um rannsókn sem var gerð árið 2014 og sýndi fram á að 15% 14 og 15 ára unglinga hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og hversu neikvæð áhrif kynferðislegt ofbeldi í æsku gæti haft á fólk.

Vantar úthald í baráttuna

Það er nauðsynlegt að sýna meira úthald þegar átt er við ofbeldi gegn börnum, að mati Geirs. „Við þurfum að skerpa vinnuna. Það hefur verið mikil umræða um hvað eigi að gera í vandanum, heilsugæslan hefur verið með ákveðin verkefni, hver aðgerðahópurinn á fætur öðrum hefur verið settur af stað innan stjórnkerfisins þannig að það hefur ýmislegt verið gert en vandinn er margþættur.

Það vantar úthaldssemina, það er alltaf sett nýtt og nýtt fólk í átaksverkefni og svo þegar menn eru komnir á skrið þá byrja einhverjir nýir. Við getum gert betur, við þurfum að sýna meira úthald í þeim verkefnum sem við erum að vinna með og auðvitað þarf að vinna á fjölbreyttum vettvangi, þá erum við að tala um heilsugæsluna, skólana, leikskóla, og almenna umfjöllun.“

Geir segir að það sé nauðsynlegt að taka vandanum alvarlega. „Það þarf að taka á þessu af miklum þunga og ekki eltast við dægurflugur dagsins heldur vinna heildstætt og hafa öflugt fólk í þessu. Ég veit að Barnaverndarstofa er að gera ýmislegt og það er mikið um átaksverkefni en það mætti gjarnan vera meira úthald, langtímahugsun og kannski fastari skorður á einhvern hátt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert