Himinlifandi yfir niðurstöðunni

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum himinlifandi yfir þessari niðurstöðu. Þetta hefur verið löng og ströng barátta og okkur finnst við hafa unnið stóran sigur fyrir hönd mjög margra.“

Þetta segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), við Morgunblaðið í dag en umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu síðasta sumar að ekki hafi verið staðið rétt að greiðslu örorkubóta til einstaklings með tilliti til búsetu. Til stendur að greiða um eitt þúsund öryrkjum sem málið snertir þær bætur sem upp á vantar en bæturnar munu væntanlega hlaupa á einhverjum milljörðum.

Haft er eftir Þuríði að ÖBÍ ætti eftir að fá upplýsingar um hvað lægi nákvæmlega að baki þessum tölum. Hún telur að flestir í hópnum sem fá leiðréttingu væru Íslendingar sem hefðu búið erlendis um lengri eða skemmri tíma. Þar væri einnig fólk sem hafi flutt erlendis frá, sest að á Íslandi og verið á vinnumarkaði en svo misst heilsuna.

Þuríður segir ljóst að TR hafi reiknað örorkulífeyri þessa hóps rangt út í líklega aldarfjórðung en einungis stæði til að leiðrétta málið fjögur ár til baka vegna fyrningarákvæða. „Við lítum svo á að nú hafi verið viðurkennt að TR hafi haft um 500 milljónir af þessum hópi á hverju ári í mörg ár. Mér finnst það vera siðferðileg skylda stjórnvalda að leiðrétta það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert