Hvaða týpa ertu?

Gretchen Rubin er líka höfundur The Happiness Report. Hún er …
Gretchen Rubin er líka höfundur The Happiness Report. Hún er búsett í New York.

Á áramótum strengir fólk gjarnan heit og setur sér markmið fyrir komandi ár. Rithöfundurinn Gretchen Rubin hefur rannsakað vana, sem geta hjálpað fólki til að standa við stóru orðin í bókinni Better Than Before en hver vill ekki verða betri en áður? Hún hefur búið til próf sem hjálpar fólki við að mynda vana eftir týpum.

Undirtitill bókar Gretchen Rubin Better Than Before er: What I Learned About Making and Breaking Habits - to Sleep More, Quit Sugar, Procrastinate Less, and Generally Build a Happier Life. Rubin þekkja margir en hún er höfundur metsölubókanna Happier at Home og The Happiness Project, sem sagt hefur verið frá á síðum Sunnudagsblaðsins.

Rubin segir vana vera ósýnilegan arkitektúr hversdagslífsins og þannig geti þeir stuðlað að breyttri og bættri hegðun. Flest höfum við vana sem við viljum breyta en í bókinni rannsakar Rubin vana ítarlega, bæði á sjálfri sér og með viðamikilli rannsóknarvinnu. Hún svarar spurningum á borð við af hverju okkur þyki erfitt að skapa vana í kringum eitthvað sem okkur finnst gaman að gera. Einnig hvernig við getum haldið við heilsusamlegum vönum umkringd freistingum. Það væri óskandi að svarið fælist í einni setningu sem allir gætu tileinkað sér en í 300 blaðsíðna bók er af mörgu áhugaverðu að taka. Niðurstaðan er sú að við verðum að þekkja sjálf okkur ef við viljum breyta vönum okkar; það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. Við þurfum að skapa vana sem henta okkur sjálfum og þannig náum við árangri. Vanar geta hjálpað til við allt frá því að klára ákveðið verkefni, borða hollara, minnka skjátíma eða auka hreyfingu en margt af þessu er fólki ofarlega í huga á áramótum.

Sjálfsstjórn dugar ekki

Sjálfsstjórn dugar oft ekki til þegar einhver ákveður að borða hollt.
Rubin bendir á að oft sé því haldið fram að sjálfsstjórn sé eitthvað sem eyðist og því sé erfitt að treysta á að fara hluti á hnefanum eins og stundum er sagt. Hún rifjar upp að hún hafi eitt sinn setið á fundi og staðist disk með smákökum í heila tvo tíma og síðan gripið tvær með á leiðinni út. Þess vegna skipti vanar svo miklu máli. Með vönum spörum við sjálfsstjórnina. Við setjum óhreinan bolla í uppþvottavélina án þess að hugsa, það þarf enga sjálfsstjórn í það.

Það þarf sjálfsstjórn til að mynda góða vana en um leið og þeir eru til staðar getum við áreynslulaust hagað lífi okkar eins og við viljum. Með vönum verður lífið einfaldara og við þurfum ekki að vega og meta hvert einasta atriði í hvert sinn heldur bara framkvæmum.

Mælanleg markmið

Einn mikilvægur þáttur er að mæla það sem við erum að gera og þá gengur yfirleitt betur í flokkum á borð við matar- og drykkjarvenjur, líkamsrækt, vinnu, sjónvarps- og netnotkun, eyðslu og fleira. Þegar við skráum hvað við gerum, verðum við meðvitaðri sem hjálpar sjálfsstjórninni. Þess vegna er betra að setja sér mælanleg markmið eins og að „lesa fréttir á hverjum degi“ eða „hringja í einn viðskipavin á dag“ í stað þess að segjast „vera upplýstari“ eða „mynda betri sambönd við viðskiptavini“. Til þess að þetta henti sem best hverjum og einum ætti aðeins að mæla og fylgjast með því sem er manni mikilvægt og þannig ætti lífsstíll manns að endurspegla þau gildi sem maður hefur í hávegum.

Lykilatriðið er að vera meðvitaður um hvernig persóna maður er til að halda sig við vanana. Oft er talað um að það sé betra að tilkynna markmið sín öllum svo maður finni frekar til ábyrgðar. Rubin segir að þetta fari hins vegar algjörlega eftir persónuleika. Mörgum dugi vel að halda markmiðum sínum fyrir sig því þeir séu mjög ábyrgir í eðli sínu gagnvart sjálfum sér. Öðrum henti að til dæmis æfa með öðrum því að þeir finni frekar til ábyrgðar gagnvart öðrum einstaklingum og séu ólíklegri til að missa af æfingu ef þeir valda öðrum vonbrigðum.

Fyrsta skrefið það þyngsta

Eins og margir vita er fyrsta skrefið oftast það þyngsta. Það getur verið mun auðveldara að halda áfram heldur en að byrja; erfiðara að koma sér á staðinn og fara í leikfimifötin en að gera sjálfa æfinguna.

Þess vegna eru vanar svona mikilvægir því þá fer ekki orka í byrjunarskrefið því það er alveg sjálfvirkt og þarfnast ekki umhugsunar.

Þeir sem ætla sér að gera líkamsrækt hluta af sinni rútínu á nýju ári ættu að íhuga að byrja með krafti. Ein leið er að skrá sig í námskeið sem stendur yfir nokkra daga í viku í mánuð en þá þarf að plana sérstaklega hvernig á að skipta yfir í að gera æfingar sem hluta af reglulegum lífsstíl, nota kraftinn í að halda áfram. Öðrum hentar að byrja í smærri skrefum. Það er engin ein leið rétt heldur er um að gera að nota það sem virkar fyrir mann sjálfan.

Erfiðara að byrja aftur

Mikilvægara er að þegar loks er búið að skapa vanann, eins og til dæmis þann að mæta í jóga tvisvar í viku, er að hætta aldrei heldur bara taka hlé. Þeir sem mæta ekki reglulega yfir sumarið ættu því ekki að hugsa með sér að þeir séu hættir og ætli að byrja einhvern tímann í haust aftur, heldur ættu þeir að ákveða dagsetninguna strax sem þeir ætla að byrja aftur að æfa. Þetta kemur í ljós í rannsóknum Rubin og geta jafnvel þeir vanar sem eru búnir að festa sig lengi í sessi verið í hættu þegar keðjan er brotin og þá er erfiðara að byrja en nokkru sinni.

Þegar við venjum okkur á eitthvað í fyrsta sinn erum við full vonar og athæfið er spennandi þó það sé erfitt. En þegar við ætlum að reyna okkur við það á ný eftir hlé er spennan minni og gallarnir sjáanlegri. Einnig ríkir sú tilfinning að maður sé verr settur en áður og kunni minna.

Þess vegna er svona gott að taka meðvitaða ákvörðun um hlé en ekki láta hlutina fjara út hvort sem vaninn hafi verið að æfa sig í erlendu tungumáli einu sinni á dag eða dagleg sundferð. Þannig er maður enn þá við stjórnvölinn en lætur ekki skeika að sköpuðu.
Annað sem er áhugavert í bók Rubin er að þar kemur fram að varhugavert geti verið að æfa fyrir stóran viðburð eða einblína á eitt markmið. Þó að þú takir þátt í næsta Reykjavíkurmaraþoni þýðir það ekki endilega að þú sért búinn að gera hlaup að reglulegum þætti í lífi þínu; mikilvægt er að plana strax framhaldið eftir að stóru markmiði er náð en líta ekki á það sem endapunkt.

Bíddu í fimmtán mínútur

Þeir sem strengdu áramótaheit ættu að fylgja einu ráði Rubin. Það er að bíða í fimmtán mínútur þegar löngunin kemur yfir þá, þegar skjárinn heillar eða kexpakkinn kallar. Jafnvel mjög kraftmikil tilfinning getur sjatnað á kortéri ef tekin er meðvituð ákvörðun um að gera eitthvað annað, sem gæti til dæmis verið að fara í gönguferð, taka til eða leika við barn. Það virkar best að gera eitthvað líkamlegt, þannig er auðveldara að trufla hugann og það er ekki verra ef manni finnst það vera eitthvað skemmtilegt.

Það er í sjálfu sér engin ástæða til þess að byrja endilega einhvers konar nýtt líf við áramót. Þeir sem eru uppreisnargjarnir í anda ættu að forðast þessi tímamót til að strengja heit. Hver dagur felur í sér tækifæri til að gera betur en í gær. Það sem færir einni manneskju gleði virkar ekki fyrir aðra og er því mikilvægt að átta sig á því hvað maður raunverulega vill og skapa vana í kringum það.

Það er engin töfraformúla til. Við verðum ekki meira skapandi eða afkastameiri með því að herma eftir vönum annarra, ekki einu sinni vönum snillinga. Við verðum að þekkja eðli okkar sjálfra og læra hvaða vanar þjóna okkur best.

Rubin segir fólk skiptast í fjórar týpur og gefur ráðleggingar á vefsíðu sinni um hvaða aðferðir henti hverri týpu. Þar er líka hægt að taka próf til að sjá í hvaða flokk maður fellur.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert