Í yfir tvo áratugi hefur Margrét Jónasdóttir unnið að gerð heimildamynda en tilviljun réði því að ungi sagnfræðineminn leiddist út á þá braut. Hún var í meistaranámi í London en skrapp heim í frí jólin 1997 og hitti þá kunningja, Magnús Viðar Sigurðsson, á förnum vegi. Þau áttu það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á þorskastríðunum en meistararitgerð Margrétar fjallaði einmitt um félagslegar afleiðingar í Hull og Grimsby eftir þorskastríðin og líf breskra togarasjómanna á Íslandsmiðum. Mitt í jólagjafaleiðangrinum ákváðu þau að stilla saman strengi sína og gera saman heimildamynd.
„Við byrjuðum strax þarna um jólin og um leið og ég kláraði MA-námið fórum við af stað í myndina okkar um þorskastríðin, Síðasta valsinn. Ég ætlaði upphaflega í doktorsnám í London og var búin að leggja drög að því að stækka rannsóknina og taka inn hvaða áhrif hrun útgerðarinnar hafði á konur og börn sjómannanna líka. En það endaði í raun sem næsta heimildamynd sem hét því skemmtilega nafni Hafmeyjar á háum hælum, ástarsögur sjómannskvenna,“ segir hún.
Eftir gerð þessara þriggja þorskastríðsþátta ákvað Margrét að sækja föggur sínar til London og flytja heim. Doktorsnámið bíður enn því Margrét hafði fundið sína hillu í lífinu. Hún hóf sinn feril í heimildamyndagerð og vann í upphafi sjálfstætt með Storm, en hefur verið hjá Sagafilm síðan árið 2008 þar sem hún er yfir heimildamyndadeildinni.
Aðspurð hvað það hafi verið við heimildamyndagerð sem hafi heillað, segir Margrét að það hafi helst verið fólkið.
„Í raun og veru voru það samskiptin við fólk. Það fylgir því alltaf ákveðin spenna að hitta nýtt fólk, hringja símtalið, taka svo viðtalið og storka sjálfri sér á nýjum stöðum. Það er rosalega mannlegt að vera í svona starfi og mjög gefandi. Ég er alltaf pínulítið stressuð þegar ég hringi dyrabjöllunni hjá ókunnugu fólki og veit ekki alveg hvað bíður. Eða hvað viðkomandi ætlar að segja. En það er líka það skemmtilegasta við starfið,“ segir hún og bætir við að oft sé vandasamt að taka viðtöl við fólk um erfið mál.
„Ég hef alltaf allan minn feril borið mikla virðingu fyrir viðmælendum mínum. Þeir eru í raun að opna glugga inn í líf sitt fyrir sjónvarp og jafnvel fyrir alheiminn. Ég er alltaf jafn þakklát fyrir það. Ég reyni að undirbúa mig vel. Ég vil skilja við verkin þannig að allir séu sáttir. Oftast tekst það.“
Margrét á ekki í vandræðum með að tala við fólk og eignast nýja vini, enda félagslynd og opin. Hún segist oft hitta áhugavert fólk í ferðum sínum.
„Í sumar var ég veðurteppt á Grænlandi en ég var í ferð með skákfélaginu Hróknum sem við erum að vinna mynd um. Þar hittum við tvo af frægustu geimförum Rússlands, annar hefur verið lengst utan geimfars allra í heiminum. Þetta voru alveg pollrólegir karlar en þeir voru að fljúga með franskan ofurhuga hringinn í kringum heimskautsbaug, en sá glímir við MS-sjúkdóminn og rekur góðgerðarsamtökin PolarKid. Við erum nú að skoða verkefni saman. Þetta starf snýst um að hafa opinn hug og anda!“ segir Margrét og segir hugmyndir oft koma svona óvænt upp í hendurnar.
Hvað stendur upp úr ef þú horfir yfir ferilinn?
Margrét hlær og hugsar sig um.
„Auðvitað þykir mér kannski ennþá vænst um fyrstu myndina, Síðasta valsinn. Það var svo mikið ævintýri og ég lærði svo mikið á því ferli. Við seldum hana til BBC sem var auðvitað ótrúlegt fyrir svona byrjendur,“ segir hún.
„Svo var eftirminnilegt að gera mynd um íslensku björgunarsveitirnar en við Magnús Viðar leikstjóri vorum á útkallslista hjá öllum íslenskum björgunarsveitum landsins, nótt og dag í fimm ár. Ég fékk öll útköll, 4-5 þúsund á ári og þurfti að velja úr þeim hvað við mynduðum. Við vorum með allt undir alltaf. Það voru tökugræjur í skottinu á bílnum, talstöðvar og aðrar græjur og við ræstum oft út tökumenn um miðjar nætur. Ég skil ekki hvernig okkur datt í hug að gera þetta!“ segir Margrét og bætir við að oft hafi aðstæður verið bæði sorglegar og gríðarlega erfiðar.
„Björgunarsveitirnar tóku okkur rosalega vel og við reyndum að vinna þetta af virðingu við alla en þetta var svakalega stórt og mikið verkefni. Ég var ofsalega fegin þegar þetta var búið og ég var tekin af útkallslistunum.“
Pípti síminn þinn allar nætur í fimm ár?
„Á óveðursnóttum og í stórum útköllum eins og eldgosum og jarðskjálftum, já. Ég man að í fyrsta óveðurshvellinum komu 40-50 útköll. Auðvitað víða af landinu. Fyrst gat ég ekki sofið fyrir þessu en svo bara vandist það,“ segir hún og skellihlær.
„Við fórum í yfir 300 útköll á þessu tímabili svo það var úr vöndu að ráða,“ segir hún.
Það er af mörgu af taka þegar Margrét er beðin um að rifja upp eftirminnileg augnablik úr starfinu.
„Ég tók viðtal við gamla konu í Kanada sem var gift togarasjómanni og hún sagði við mig: „Mér fannst ég aldrei hafa átt merkilegt líf fyrr en þú komst.“ Þetta þótti mér vænt um og snerti mig. Það sýnir líka að það eiga allir merkilegt líf og það eiga allir sögur. Það var líka svo fallegt að hún náði að fara yfir allt sitt líf með eiginmanni sínum en hann dó áður en við náðum að klára myndina,“ segir hún.
Aðspurð hvort hún hafi lent í hættum í þessum ferðum sínum hlær Margrét og viðurkennir að hafa svo sem lent í ofsaveðri úti á sjó en segist ekki hafa orðið hrædd.
„Ég hugsa stundum hlutina ekkert til enda. Það er þægilegast; ég er ekki að hugsa um það sem gæti farið úrskeiðis,“ segir hún.
Í hugann kemur eitt atvik frá tökum á Grænlandi þar sem fór aðeins um hana.
„Ég var eitt sinn skilin eftir úti á ísnum á Grænlandi á bak við einhvern borgarísjaka þegar ég var að gera myndina um Raxa. Tökuliðið var marga kílómetra frá mér en ég stóð þarna með talstöð af því að leikstjórinn þurfti að hrópa til mín hvenær ég mætti senda veiðimennina af stað til þess að ná fallegu skoti af ísbreiðunni og þeim á sleðunum. Þá hugsaði ég með mér þar sem ég stóð dúðuð og gat varla hreyft mig fyrir fatnaði, í 25°C frosti, að þetta yrði góð saga en erfið fyrir dóttur mína þegar leikstjórinn hringdi í hana og segði að ísbjörn hefði étið móður hennar. Ég reyndi að bægja þessari hugsun frá mér en það fór nú um mig enda var ég ekki með nein vopn og menn langt í burtu og þetta var ísbjarnasvæði. Svo kunni ég varla á talstöðina og átti í vandræðum með að kalla,“ segir hún og brosir.
Margrét er um þessar mundir í startholunum fyrir afar spennandi heimildamynd sem hún segir sína fyrstu mynd sem á sér í raun enga tengingu við Ísland.
„Hún fjallar um Carinthiu West, breskan ljósmyndara sem var leikkona og fyrirsæta. Við í Sagafilm ákváðum að fara í þessa mynd þó að ég sæi fyrir mér vandræði, þar sem bestu vinir ljósmyndarans eru frægustu rokkstjörnur og leikarar í heiminum. West er í raun amatör ljósmyndari. Hún var uppgötvuð sextán ára gömul, þar sem hún stóð á strætóstoppistöð í London, af hirðljósmyndara Bítlanna, Robert Whitaker, en sá maður deildi vinnustofu með Eric Clapton. Hún er einkabarn foreldra sinna og faðir hennar var hershöfðingi í breska hernum og listhneigður mjög. Hún var því alin upp við það að umgangast frægt fólk. Svo æxlast það þannig að hún kynnist ýmsum úr rokk- og leiklistarheiminum. Hún leigði t.d. með Helen Mirren og þær eru vinkonur og Ronnie Wood úr Rolling Stones og Krissy kona hans voru vinir hennar. Þannig kynntist hún líka Mick Jagger. Hún var alltaf með myndavél um hálsinn og var alltaf að taka myndir af vinum sínum. Þetta eru svona myndir eins og í gömlu albúmum okkar, vinir á ferðalagi og úti að djamma,“ segir Margrét.
Nýlega hélt West sýningu á myndum sínum og sýna þær vini hennar, stórstjörnurnar, í ýmsum venjulegum og óvenjulegum aðstæðum.
„Carinthia hefur alltaf farið vel með myndirnar og ekki viljað sýna þær. Þrír af hennar góðu vinum eru látnir, þeir David Bowie, John Hurt og Robin Williams, og þá fór hún að hugsa að nú væri kominn tími til að fara yfir þetta tímabil og var tilbúin að gera mynd. En það verður ekki auðvelt því það er ekkert hlaupið að því að ná viðtölum við þetta fræga fólk, vini hennar,“ segir hún og bætir við að West ætli nú að opna safnið sitt upp á gátt og hjálpa þeim að ná tali af vinum hennar.
Margrét og Ragnar Agnarsson leikstjóri ákváðu að ráðast ekki á garðinn þar sem hann væri lægstur og byrjuðu á að taka viðtal við Mick Jagger, áður en farið væri í fjármögnun.
„Mick Jagger samþykkti í vor að koma í viðtal og við tókum það upp á skrifstofu hans í London núna í desember. Og þótt ég hafi tekið viðtöl við alls konar þekkt fólk þá er hann sá langfrægasti hingað til.“
Hvernig var hann?
„Hann var bara æðislegur. Ég var auðvitað dálítið stressuð en maður er það alltaf fyrir öll viðtöl. Hann var búinn að fá spurningar fyrirfram og snerust þær um þeirra vináttu en myndin fjallar að miklu leyti um vináttuna og svo líf Carinthiu. Hann stóð fyllilega undir væntingum. Hann var bara miklu betri en ég átti von á. Ég reyndi að nálgast þetta eins og hvert annað viðtal enda eru allir merkilegir, hvort sem það eru togarasjómenn frá Hull eða Mick Jagger,“ segir hún.
Blaðamaður vill vita meira og biður um smáatriði.
„Hann skrúfaði nú sjarmann í botn og sló á létta strengi. Og hann er dálítið sætur og sjarmerandi þrátt fyrir að vera 75 ára, en ég hef nú alltaf verið svolítið veik fyrir eldri körlum með góðar sögur,“ segir hún hlæjandi.
Margrét gaf honum að skilnaði nýju ljósmyndabókina Glacier eftir Ragnar Axelsson og þakkaði hann fyrir sig. Daginn eftir hélt hún til fundar við BBC til þess að ræða næstu verkefni. Næst á dagskrá er að ná tali af nokkrum vinum Carinthiu West í viðbót.
Kannski verður Helen Mirren næsti viðmælandi?
Margrét er hógvær og vill ekki lofa upp í ermina á sér.
„Við tökum þessu auðvitað með okkar stóísku ró. Það er ekkert öruggt í þessum bransa. Við lifum bara á brúninni með hvert verk og erum auðvitað ekki að bjarga neinum mannslífum með þessu starfi, bara góðum sögum.“
Viðtalið í heild birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.