Banna sölu snjallúra fyrir börn

Ljósmynd/Vefsíða Amazon

Neytendastofa tók í vikunni ákvörðun um að banna sölu og afhendingu á Wonlex-snjallúrum fyrir börn, en verslunin Tölvutek hefur haft úrin til sölu. Ákvörðunin var tekin í framhaldi af könnun á úrunum í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun og Persónuvernd.

„Ástæðuna fyrir banninu má meðal annars rekja til þess að úrin eru ekki CE-merkt. Öll snjallúr eiga að vera CE-merkt en merkið gefur til kynna að varan hafi uppfyllt allar lágmarkskröfur,“ segir í tilkynningu  á vef Neytendastofu.

Einnig var úrið sent til Syndis, ráðgjafafyrirtækis í öryggismálum, sem skoðaði úrið og komst að því að alvarlegir öryggisgallar voru á því. Í ljós kom að með aðgengi að skráningarnúmeri úrsins er hægt að „hakka“ sig inn í úrið og fá aðgang að gögnum sem þar eru varðveitt.

„Einnig kom í ljós að mögulegt var að breyta símanúmerum, hafa samskipti við barn í gegnum snjallúrið, án vitneskju forráðamanns barns, og nálgast upplýsingar um staðsetningu barnsins,“ samkvæmt því sem fram kemur á vef Neytendastofu.

Um er að ræða eina tegund, Wonlex GW100.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert