Breytingar á leið 14 hjá Strætó

Leið 14 hefur ekið fram hjá bæði Landspítala og HÍ …
Leið 14 hefur ekið fram hjá bæði Landspítala og HÍ en með breytingum sem tóku gildi í dag ekur vagninn um Hverfisgötu á leið sinni út á Granda. mbl.is/Eggert

Í dag tóku í gildi breytingar á akstursleið 14 hjá Strætó. Breytingin fellst í því að leið 14 ekur nú ekki lengur um Lækjargötu, Hringbraut og Snorrabraut til og frá Hlemmi, heldur um Hverfisgötu. Þetta er gert þar sem vagnar á leið 14 hafa átt í miklum vandræðum með að halda áætlun á háannatímum.

Þó nokkrir notendur leiðar 14 hafa furðað sig á þessum breytingum í umræðum um þær í hverfishópum Langsholts- og Laugarneshverfa á Facebook í dag. Helst gætir óánægju með það að í kjölfar breytinga aki leið 14 ekki lengur beint úr þeirra hverfum og að Landspítala og Háskóla Íslands, heldur þurfi farþegar nú að skipta um vagn til að komast leiðar sinnar á þessa staði.

Þetta er óskiljanleg breyting. Vagninn er alltaf fullur af skólafólki á morgnana,“ skrifar einn notandi, sem segist alltaf taka vagninn á Landspítala. Aðrir segjast skilja breytinguna, enda hafi vagninn sjaldan náð að halda tímaáætlun, með tilheyrandi óhagræði.

Í minnisblaði Strætó um breytinguna á leið 14 frá því október segir að þörf hafi verið á að stytta leiðina „til að koma í veg fyrir að leiðin sé alltaf töluvert mikið of sein seinnipart dags með tilheyrandi óþægindum fyrir farþega“.

„Aldrei nema örfáar mínútur í næsta vagn“

Þar segir einnig að með breytingunni þurfi einhverjir farþegar að skipta um vagn til þess að komast á áfangastað, miðað við fyrri akstursleið leiðar 14.

„Sem dæmi gæti farþegi sem ætlar frá Austurbrún að Landspítalanum skipt yfir í leiðir 15 eða 5 á Laugavegi, ef hann ætlaði að HÍ gæti hann t.d. skipt yfir í leiðir 1, 3, 6 eða 12 á Hlemmi. Leiðir 1 og 6 aka á 10 mín. tíðni á annatíma og hinar á 15 mín. tíðni, því er aldrei nema örfáar mínútur í næsta vagna á annatíma,“ segir í minnisblaðinu.

Kort/Strætó

„Á móti myndu tímasetningar leiðar 14 verða nákvæmari og minni seinkanir sem ætti að hafa jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir farþega,“ segir þó einnig í minnisblaðinu um breytinguna, en þar kemur einnig fram að sparnaður Strætó vegna þessarar aðgerðar hafi verið metinn um 40 milljónir króna á ársgrundvelli.

Í dag tóku einnig gildi breytingar á tímatöflum leiða 28 og 75. Tímatöflu leiðar 28 er breytt til að tryggja betri tengingar við Hamraborg og í þeirri von að tímajöfnun minnki í Dalaþingi en tímatöflu leiðar 75 er breytt til að hún passi betur við tómstundaiðkun ungmenna í Árborg.

Einhverjir notendur hafa lýst yfir óánægju með breytinguna.
Einhverjir notendur hafa lýst yfir óánægju með breytinguna. mbl.is/Valli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert