Næg „fita“ hjá ríkinu fyrir vegina

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist tilbúinn að falla frá öllum áformum um veggjöld ef pólitísk sátt næðist um að veita tíu milljörðum króna til viðbótar í samgöngumál, en hann talaði fyrir veggjöldum í útvarpsþættinum Þingvellir á K100 í morgun. Sagði hann að þá fjármuni mætti sækja í aðra anga ríkisins á borð við heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið. Aðrir gestir þáttarins voru Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, en þau sitja öll í umhverfis- og samgöngunefnd sem nú hefur til umfjöllunar ákvörðun um veggjöld. 

Björt Ólafsdóttir þáttarstjórnandi spurði Vilhjálm hvort það gengi ekki gegn stefnu sjálfstæðismanna að hækka skatta og gjöld þegar þeir töluðu um það „á tyllidögum“ að nóg væri komið í þeim efnum. Vilhjálmur sagði m.a. að samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum væri 50 milljarðar króna á ári.

„Við þurfum að setja meira í samgöngumál og það virðast allir vera með það á sinni stefnuskrá. Í hinni pólitísku umræðu fá samgöngumálin aldrei það svigrúm sem þau ættu að fá miðað við slys og það mikilvægi sem þau hafa í uppbyggingu þessa samfélags. Þau drífa áfram hagvöxtinn og annað slíkt,“ sagði hann og vísaði til umræðu um fjárlög ríkisins. „Allar breytingatillögur minnihlutans snúa að heilbrigðis- og almannatryggingakerfinu, engar að samgöngumálum. Pólitíska áherslan er þar og samgöngumálin fá ekki þá athygli sem þau þurfa,“ sagði hann.

Hægt að hagræða í ríkisrekstrinum

Vilhjálmur sagði veggjöldin snúast um það að veita tíu milljörðum inn í samgöngumálin. „Ég skal vera fyrstur til þess að hætta við allar pælingar um veggjöld ef við getum náð pólitískri sátt um það að taka tíu milljarða úr ríkissjóði og setja inn í samgöngumálin. Það þarf þá að vera pólitísk sátt um það að minnka framlög í heilbrigðis- og félagskerfið sem tekur stærstan hluta til að setja þarna inn,“ sagði hann.

Björt spurði þá hvort það væri pólitískur vilji hjá Sjálfstæðisflokknum að draga úr fjárveitingum í þessum málaflokkum og setja í samgöngumál í staðinn. Vilhjálmur svaraði því til að það væri pólitískur vilji til þess að hagræða í ríkisrekstri og minnka „báknið“.

„Það er vilji til að nýta fjármunina betur og setja í þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir sem auka hagvöxt. Ég nefni hér heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið því þar eru stóru upphæðirnar. Margir nefna utanríkisþjónustuna og fleira, en hún kostar ekki tíu milljarða, þannig þar er engin fita,“ sagði hann og kvað aðspurður að í heilbrigðikerfinu og félagslega kerfinu væri „fita“ eins og á öðrum sviðum. „Það er líka hægt að nýta fjármunina betur og á skipulegri hátt,“ sagði hann.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, talaði fyrir veggjöldum í útvarpsþættinum Þingvellir …
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, talaði fyrir veggjöldum í útvarpsþættinum Þingvellir á K100 í morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert