„Frú María Josefine Angelique Kruger var eitt sinn, eftir því sem sagan segir, snemma dags á fótum í borðstofu Apóteksins. Var hún þannig klædd, að hún var í náttkjól með slegið hár. Maður hennar, Kruger apótekari, var og þar í stofunni og varð þeim hjónum sundurorða. Frúin hafði í hendinni meðalaglas með karbólsýru í; og er henni rann svo í skap við mann sinn, að hún var til búin að leita örþrifaráða, kallaði hún til hans, að ef hann léti eigi af orðum sínum, þá mundi hún súpa úr karbólsýru glasinu. Apótekarinn lét eigi skipast við hótun konu sinnar, og sagði eitthvað á þá leið, að hún mundi gera svo sem henni bezt þóknaðist. Gekk hann því næst út úr stofunni og inn í lyfjabúðina; en hafði aðeins verið þar drukklanga stund, er honum barst til eyrna, að frúin hefði drukkið karbólsýruna. Átti hún skammt eftir ólifað er að var komið. Hún var jörðuð í þeim hluta kirkjugarðsins gamla, er apótekið hafði þá fengið fyrir blómagarð.“
Með þessum orðum var örlögum Marie Josephine Angelique Krüger, eiginkonu Krügers lyfsala í Reykjavík, lýst í blaðinu Lögbergi árið 1930 en hún lést síðsumars 1882, aðeins 27 ára að aldri. Frú Krüger dó frá kornungri dóttur sem sjálf lést nokkrum mánuðum síðar og var lögð til hinstu hvíldar við hlið móður sinnar í Víkurkirkjugarði.
Þessar löngu látnu mæðgur fléttast inn í deilu í samtímanum en sumir vilja stöðva framkvæmdir á Landssímareitnum enda sé ekki sannað að öll bein úr Víkurkirkjugarði séu komin upp á yfirborðið, þar á meðal jarðneskar leifar Krüger-mæðgnanna.
Í þessum hópi er Jón Hálfdanarson eðlisfræðingur sem kynnt hefur sér sögu Víkurkirkjugarðs. „Mun konan með slegna hárið fá að hvíla í friði við hlið dóttur sinnar?“ spyr Jón.
„Minningarmörkin voru sannarlega fjarlægð og grindverkið utan um leiðið en það eru engar vísbendingar um að jarðneskar leifar Krüger-mæðgnanna hafi nokkurn tíma komið. Fyrir vikið ber að stöðva framkvæmdirnar á Landssímareitnum meðan menn leita af sér allan grun. Ef að líkum lætur eru mæðgurnar ekki einar þarna, hvar er til dæmis kista Geirs biskups góða? Hún vó 150 kg og biskup var ívið þyngri. Það þurfti tólf menn til að bera kistuna í og úr kirkju og skiptust þeir á. Mikið hefur gengið á í Víkurkirkjugarði – er nú ekki nóg komið?“ spyr Jón enn fremur.
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.