Viðrar hugmynd um kjötskatta

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, viðraði á föstudag hugmynd …
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, viðraði á föstudag hugmynd um kjötskatta. mbl.is/Hari

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, telur að kjötskattur gæti verið rökrétt skref, bæði til þess að bregðast við áhrifum kjötneyslu á heilsufar og sem liður í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Þetta sagði þingmaðurinn á Facebook-síðu sinni á föstudag, en nánar var rætt við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Á Facebook líkti hann kjötskattinum við tóbaksskatta og skatta á jarðefnaeldsneyti, sem eiga að stuðla að bættri lýðheilsu annars vegar og draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum hins vegar.

Í samtali við Stöð 2 í kvöld sagði hann að hann hefði séð breskan þingmann leggja til að tekinn yrði upp sérstakur kjötskattur, til að bregðast við áhrifum kjötframleiðslu á loftslagsmál.

„Mig langaði því að velta upp hvort við ættum að skoða þetta hér á landi, sem lið í því að bregðast við loftslagsbreytingum,“ bætti hann við.

Þingmaðurinn sagðist jafnframt vona að við endurskoðun loftslagsáætlunar ríkisstjórnarinnar verði litið til lausna eins og kjötskatts, í því skyni að auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni framleiðslu.

„Þetta væri neyslustýring í grunninn en svo væri auðvitað hægt að nýta þessa fjármuni til að skipta yfir í framleiðslu á vörum sem eru betri fyrir umhverfið út frá loftslagssjónarmiðum," sagði Andrés Ingi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert