Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar ekki að verða við kröfu Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að víkja úr þriggja manna hópi sem á að rýna í niðurstöður innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið svonefnda.
Fyrir vikið mun Hildur segja sig úr hópnum, eins og hún hefur sjálft lýst yfir.
Í samtali við fréttastofu RÚV sagðist Dagur hafa svarað neitandi tölvupósti Hildar frá því á Þorláksmessu þar sem hún krafðist þess að hann viki úr hópnum.
„Ég vonast til þess að eiga gott samstarf við hana og aðra í borgarráði,“ sagði Dagur. „Borgarráð verður þá sá vettvangur sem við höfum til að vinna þetta mál með minnihlutanum.“
Spurður nánar út í af hverju hann vilji ekki segja sig úr hópnum sagði hann: „Braggamálinu er lokið, framkvæmdum er lokið, óháðri úttekt er lokið. Núna bíða umbætur og ég held að það sé skylda okkar allra að vinna að því. Þar er stjórnkerfið undir,“ bætti Dagur við og sagði það eina af skyldum sínum að fylgja eftir ábendingum innri endurskoðunar.