Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 2,3 milljónir árið 2018 eða rúmlega 120 þúsund fleiri en árið 2017. Nemur aukningin 5,5 prósentum á milli ára. Þetta kemur fram í nýjum tölum Ferðamálastofu fyrir árið 2018.
Fjölgunin er minni milli ára en undanfarin ár, en hún var á bilinu 24,1 prósent til 40,1 prósent milli ára á tímabilinu 2013 til 2017. Sé horft til þjóðernis farþega var mest fjölgun farþega frá Norður-Ameríku, eða um 115 þúsund manns. Hlutfallslega var mest fjölgun í maí og september, um 13 prósent. Minnst aukning var í mars, júlí, ágúst, nóvember og desember, eða á bilinu 1,5 prósent til 3,7 prósent.
Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir á síðasta ári tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, eða 695 þúsund brottfarir. Nemur það 20,5 prósenta aukningu í brottförum Bandaríkjamanna frá árinu 2017. Næstflestar brottfarir voru hjá breskum ríkisborgurum og mældist fjöldi þeirra 298 þúsund árið 2018. Þeim fækkaði þó um 24.600 á milli ára.
Þjóðverjar voru í þriðja sæti en fækkaði um 10,7 prósent milli ára og Kanadamenn skipuðu fjórða sætið. Þeim fækkaði einnig, um 3,2 prósent.
Sjá nánar á vef Ferðamálastofu